Erlent

Bretland slapp með skrekkinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Bretland slapp með skrekkinn í einni sögulegustu þjóðaratkvæðagreiðslu Evrópu þegar skoska þjóðin greiddi atkvæði um hvort Skotland ætti að verða sjálfstætt ríki.

Atkvæðagreiðslan mun örugglega leiða til mikilla breytinga í breskum stjórnmálum og jafnvel til þess að Bretland verði sambandsríki.

45 prósent Skota greiddu atkvæði með fullu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær er 55 prósent vildu halda sambandinu við Bretland. Þetta er töluvert meiri munur en síðustu kannanir sýndu í vikunni, en þá ber að hafa í huga að mjög margir kjósendur voru óákveðnir fram á síðustu mínútu og mjög hátt hlutfall greiddi atkvæði utan kjörfundar.

Kjörsókn sló öll met, en 86 prósent kosningabærra manna greiddi atkvæði og fór kjörsóknin í einstökum kjördæmum yfir 90 prósent. Mestur var stuðningurinn við sjálfstæðið í Dundee, rúm 57 prósent og í fjölmennasta kjördæminu, Glasgow, þar sem rúm 53 prósent vildu sjálfstætt Skotland.

Kosningagreiningar sýna að það voru helst atvinnulausir og ómenntað verkafólk sem vildi sjálfstætt Skotland en hin menntaða millistétt, eins í háskólaborginni Edinborg, vildi halda í sambandið, eða 61 prósent. David Cameron forsætisráðherra var létt þegar hann ávarpaði fréttamenn snemma í morgun.

Segja má að skosku kosningarnar hafi verið alvarleg viðvörun til til stjórnmálaflokkanna í Bretlandi, enda lofa leiðtogar þeirra allra að tekið verði mark á háværum óánægjuröddum tæplega helmings skosku þjóðarinnar, sem einnig óma í öðrum hlutum Stóra-Bretlands.

Þingkosningar fara fram í Bretlandi eftir níu mánuði og má segja að þjóðaratkvæðagreiðslan í gær marki upphaf kosningabaráttunnar fyrir þær og leiði ef til vill til þess að Bretland verði sambandsríki í náinni framtíð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.