Innlent

Óskað eftir frekari gögnum í máli hjúkrunarfræðingsins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá fyrirtöku málsins hinn 24.júní.
Frá fyrirtöku málsins hinn 24.júní. vísir/pjetur

Fyrirtaka í máli hjúkrunarfræðingsins sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi fór fram öðru sinni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Óskað var eftir frekari gögnum, meðal annars sjúkragögnum hins láta. Boðað var til milliþinghalds þar sem Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, mun bera vitni í málinu og lýsa yfir afstöðu spítalans. Aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á næsta ári.

Hjúkrunarfræðingurinn lýsti yfir sakleysi sínu við fyrirtöku málsins hinn 24.júní síðastliðinn og gerði Landspítalinn hið sama. Þá hafnaði hjúkrunarfræðingurinn bótakröfu líkt og lögfræðingur spítalans fyrir hönd hans.

Ríkissaksóknari lagði fram ákæru á hendur Landspítalanum og hjúkrunarfræðingi gjörgæsludeildar í maí síðastliðnum fyrir manndráp af gáleysi. Er hjúkrunarfræðingurinn sakaður um röð mistaka sem dró sjúkling til dauða árið 2012. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar spítalans ollu margir samverkandi þættir mistökunum, en það er algengasta ástæða mistaka í heilbrigðiskerfinu.

Aldrei fyrr hefur starfsmaður Landspítalans, né Landspítalinn, verið ákærð fyrir atvik af þessu tagi. Landspítalinn úthlutaði hinum ákærða lögmanni ásamt því að hafa sinn eigin lögmann. Landspítalinn standi þó með hinum ákærða.

Mistök hjúkrunarfræðingsins áttu sér stað á kvöldvakt sem hún vann í beinu framhaldi af dagvakt. Hjúkrunarfræðingnum er meðal annars gefið að sök að hafa láðst að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hún tók hinn látna úr öndunarvél.

„Ákærðu var vel kunnugt um að henni bar að tæma loftið úr kraganum, líkt og vinnulýsing um notkun talventilsins kveður á um,“ kemur fram í ákærunni og urðu afleiðingarnar þær að fall varð á súrefnismettun og blóðþrýstingi sjúklingsins með þeim afleiðingum að hann lést skömmu síðar.

Einnig er hún sökuð um að hafa brugðist tilkynningaskyldu með því hafa ekki látið þann hjúkrunarfræðing sem varð eftir á stofu sjúklingsins vita að hún hafi sett á hann talventil. „Þessi vanræksla ákærðu stuðlaði enn frekar að því að mannsbani hlaust af gáleysi hennar.“

Er hjúkrunarfræðingurinn krafin um á fimmtándu milljón króna frá aðstandendum hins látna, þar á meðal vegna kostnaðar við útför hans.


Tengdar fréttir

"Hún getur ekki verið ein ábyrg“

Landspítalinn og hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild spítalans voru í dag ákærð fyrir manndráp af gáleysi vegna atviks sem kom upp á spítalanum í október 2012, en ekkja mannsins sem lést segist ósátt við ákæruna. Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum segir íslenskt heilbrigðiskerfi standa á krossgötum.

Óttast að ákæra muni breyta heilbrigðiskerfinu

Stjórnendur Landspítalans vilja byggja upp menningu meðal starfsmanna sem hvetur þá til að tilkynna öll mistök. Á næstunni kemur í ljós hvort heilbrigðisstarfsmaður verður ákærður fyrir manndráp af gáleysi.

Mál hjúkrunarfræðings hjá ríkissaksóknara

Lögreglurannsókn á máli hjúkrunarfræðings sem grunaður er um manndráp af gáleysi er lokið. Málið er á borði ríkissaksóknara og ekki enn komin ákæra í málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×