Innlent

Eftirlit með heilbrigðiskerfinu sagt ófullnægjandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Auðbjörg og Guðrún segja eftirlit með heilbrigðiskerfinu óviðunandi með öllu.
Auðbjörg og Guðrún segja eftirlit með heilbrigðiskerfinu óviðunandi með öllu. Mynd/Samsett
Ekki eru til aðferðir við að rannsaka mistök í íslenska heilbrigðiskerfinu og mikið völundarhús mætir þeim sem vilja leita réttar síns í kjölfar slíkra mistaka. Þetta segir meðal annars í grein Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur og Auðbjargar Reynisdóttur sem birtist á vefsíðu Kvennablaðsins um síðustu helgi. Guðrún og Auðbjörg gagnrýna það sérstaklega að þeir sem bera ábyrgð á læknameðferðinni rannsaki í raun eigin störf.

„Í raun og veru getur enginn rannsakað mistök nema með samþykki læknis og/eða landlæknis, þar sem læknir og landlæknir geta neitað sjúklingi um aðgang að eigin sjúkraskrá ef þeim sýnist svo,“ segir í greininni, sem ber heitið „Kvartanir sjúklinga – Tækifæri eða tortíming.“

Það er svo í verkahring embættis landlæknis að rannsaka málin. Í greininni er vandinn við þetta sagður sá að landlæknir óskar eftir áliti þeirra sem veittu þjónustuna sem er til rannsóknar og óskar svo eftir áliti samstarfsaðila þeirra.  

Þannig er málið aldrei til rannsóknar hjá óháðum aðila nema sjúklingar sækist eftir því sjálfir, til dæmis með að fá álit umboðsmanns Alþingis. Í greininni segir að mörg dæmi um álitsgjöf umboðsmanns bendi til þess að heilbrigðisstofnanir „beiti öllum brögðum til að verja sig.“

„Það er með öllu ófullnægjandi hvernig eftirliti með heilbrigðiskerfinu er háttað,“ segir að lokum í greininni.

Guðrún Bryndís er sjúkraliði og Auðbjörg hjúkrunarfræðingur. Auðbjörg hefur oft skrifað um mistök í heilbrigðiskerfinu og er formaður samtakanna Viljaspor, félags um öryggi sjúklinga og úrvinnslu atvika í heilbrigðisþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×