Innlent

Hjúkrunarfræðingurinn neitar sök

Frá fyrirtökunni í morgun,
Frá fyrirtökunni í morgun, Vísir/Pjetur

Hjúkrunarfræðingurinn, sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi vegna vanrækslu í starfi, og lögfræðingur Landspítalans, fyrir hönd spítalans, neituðu sök við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Málinu verður framhaldið þann 4. september næstkomandi. Hjúkrunarfræðingurinn hafnaði bótakröfu líkt og lögfræðingur spítalans.

Við þingfestingu málsins í héraði 6. júní tók hjúkrunarfræðingurinn sér frest til að taka afstöðu til ákærunnar. Var því af þeim sökum frestað til dagsins í dag.

Fyrsta mál sinnar tegundar

Þetta er í fyrsta skipti sem Landspítalinn og starfsmaður hans eru ákærðir fyrir atvik af þessu tagi en atvikið átti sér stað í október árið 2012.

Mistök hjúkrunarfræðingsins áttu sér stað á kvöldvakt sem hún vann í beinu framhaldi af dagvakt. Hjúkrunarfræðingnum er meðal annars gefið að sök að hafa láðst að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hún tók hinn látna úr öndunarvél.

„Ákærðu var vel kunnugt um að henni bar að tæma loftið úr kraganum, líkt og vinnulýsing um notkun talventilsins kveður á um,“ kemur fram í ákærunni og urðu afleiðingarnar þær að fall varð á súrefnismettun og blóðþrýstingi sjúklingsins með þeim afleiðingum að hann lést skömmu síðar.

Bótakrafa upp á tæpar fimmtán milljónir króna

Þegar hjúkrunarfræðingurinn kom á umrædda kvöldvakt og tók við umönnun sjúklingsins er henni gefið að sök að hafa ekki framkvæmt öryggiseftirlit sem var hluti af starfsskyldum ákærðu samkvæmt verklagsreglum spítalans – „sem ákærða þekkti vel til,“ eins og stendur í ákærunni.

Einnig er hún sökuð um að hafa brugðist tilkynningaskyldu með því hafa ekki látið þann hjúkrunarfræðing sem varð eftir á stofu sjúklingsins vita að hún hafi sett á hann talventil. „Þessi vanræksla ákærðu stuðlaði enn frekar að því að mannsbani hlaust af gáleysi hennar.“

Er hjúkrunarfræðingurinn krafin um á fimmtándu milljón króna frá aðstandendum hins látna, þar á meðal vegna kostnaðar við útför hans.


Tengdar fréttir

Segir ákæru gegn hjúkrunarfræðingi áfall

Forstjóri Landspítalans segir að tilkynningar um mistök eigi ekki að leiða til leitar að sökudólgum. Heilbrigðisráðherra vonar að málið verði ekki til þess að heilbrigðisstarfsmenn hylmi yfir mistök.

Hjúkrunarfræðingurinn tók sér frest

Lögfræðingur hjúkrunarfræðingsins, sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi vegna vanrækslu í starfi, fór fram á frest til að taka afstöðu til ákærunnar þegar málið var þingfest í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×