Innlent

Mál hjúkrunarfræðings hjá ríkissaksóknara

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Atvikið gerðist á gjörgæsludeild Landspítlans í október í fyrra. Mynd úr safni.
Atvikið gerðist á gjörgæsludeild Landspítlans í október í fyrra. Mynd úr safni. Mynd/Vilhelm

Lögreglurannsókn á máli hjúkrunarfræðings, sem grunaður er um mistök eða vanrækslu í starfi sem leiddi til þess að maður lést á gjörgæsludeild Landspítalans í október á síðasta ári, er nú lokið.

Málið er komið á borð ríkissaksóknara og mun koma í ljós á næstunni hvort gefin verði út ákæra í málinu eða ekki. Það verður þá í fyrsta skipti sem heilbrigðisstarfsmaður á Íslandi er ákærður fyrir manndráp af gáleysi.

Í Svíþjóð kom upp mál fyrir um tíu árum þegar hjúkrunarfræðingur var dæmdur sekur í hæstarétti fyrir manndráp af gáleysi. Ákæran og dómsorðið vöktu sterk viðbrögð og gagnrýni, meðal annars vegna þess að bent var á einn ákveðinn blóraböggul í stað þess að greina kringumstæður málsins, verklag, skipulag og starfsaðstæður og fyrirbyggja að mistök hendi aftur.

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir starfsfólk spítalans harma þetta atvik og verkferlar hafi verið bættir í kjölfar þess.

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir starfsmenn spítalans hafa brugðist hárrétt við þegar upp kom grunur um mistök. „Starfsmenn létu vita af atvikinu og um leið hófst innri rannsókn hér á spítalanum. Þeirri rannsókn er lokið og kom í ljós að samverkandi þættir urðu þess valdandi að mistök urðu sem við höfum brugðist við með umbótum. Staða hjúkrunarfræðingsins í málinu er nýr veruleiki fyrir okkur og gríðarlegt áfall fyrir alla.“ 

Sigríður segir svona atburð breyta lífi allra sem koma að honum. „Umfram allt þá hörmum við að svona hafi farið. Við höfum verið í góðu sambandi við aðstandendur og hugur okkar er hjá þeim.“

Hjúkrunarfræðingurinn sem um ræðir starfar ekki lengur á gjörgæsludeild þar sem atvikið átti sér stað heldur á annarri deild spítalans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×