Enski boltinn

Gylfi Þór: Enginn bjóst við fullu húsi stiga

Tómas Þór Þ'orðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar sigurmarkinu gegn Manchester United á fyrsta degi úrvalsdeildarinnar.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar sigurmarkinu gegn Manchester United á fyrsta degi úrvalsdeildarinnar. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Swansea eru í smá fríi frá ensku úrvalsdeildinni þessa dagana á meðan undankeppni EM 2016 fer í gang, en Gylfi verður með íslenska liðinu í eldlínunni á þriðjudaginn gegn Tyrklandi.

Hann kemur sjóðheitur til leiks enda búinn að skora eitt mark og leggja upp fjögur í fyrstu þremur leikjum Swansea í úrvalsdeildinni. Liðið er jafnt Chelsea í efstu tveimur sætum deildarinnar, en bæði lið eru með níu stig eftir þrjá leiki.

„Það bjóst enginn við því að við værum með níu stig eftir fyrstu þrjá leikina,“ segir Gylfi Þór í viðtali við South Wales Everning Post, en Swansea lagði Manchester United á útivelli í fyrstu umferð þar sem Hafnfirðingurinn skoraði sigurmarkið.

vísir/getty
Þegar úrvalsdeildin hefst aftur annan laugardag mætir Swansea einmitt Chelsea í toppslag á Stamford Bridge í London. Chelsea-liðið hefur litið virkilega vel út í byrjun tímabils og þykir hvað líklegast til að vinna titilinn.

„Við förum bara þangað og skemmtum okkur, spilum okkar fótbolta og sjáum til hvað gerist. Við munum spila okkar venjulega leik og gerum það sem stjórinn heimtar af okkur,“ segir Gylfi.

„Vonandi getum við haldið aftur hreinu. Það yrði mjög sterkt því við erum með þannig leikmenn í liðinu að við getum alltaf skorað mörk. En því er ekki að neita að í Chelsea-liðinu eru frábærir leikmenn.“

Gylfi Þór, sem gekk aftur í raðir Swansea frá Tottenham í sumar, segist njóta lífsins enda byrjar tímabilið vel. Hann er með leikmenn í kringum sig sem honum líkar vel að spila með.

„Ég er með JonjoShelvey og Ki fyir aftan mig sem eru að senda boltann vel og það er auðvelt að spila með. Vængmennirnir eru að spila vel og Bony er öflugur frammi. Það er frábært að sjá hvernig Swansea vill spila fótbolta og við erum að sýna öllum það,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir

Gylfi lagði upp sigurmark Swansea

Swansea er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir að liðið lagði nýliða Burnley 1-0 á heimavelli.

Keown: Kaupin á Gylfa þau bestu í sumar

Martin Keown, fyrrum varnarmaður Arsenal og enska landsliðsins hefur hrifist af spilamennsku Gylfa Þórs Sigurðssonar í upphafi tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×