Næraberg varð fyrir vélarbilun í vikunni þegar skipið var við makrílveiðar í lögsögu Grænlands. Flugvél landhelgisgæslunnar flaug með varahluti til skipsins sem í kjölfarið gat siglt til Reykjavíkurhafnar. Þegar þangað var komið fékk áhöfnin þau tilmæli að hún mætti ekki yfirgefa skipið né taka vistir í formi matar né olíu. Ástæðan er deila Íslendinga við önnur strandríki um veiðar á makríl. Málið hefur vakið sterk viðbrögð bæði hér heima á Íslandi en einnig í Færeyjum.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir að misskilningur ríki í málinu og að fjölmiðlaumfjöllun um málið hafa verið óvæg í garð stjórnvalda. Aðeins sé verið að fylgja lögum.
„Það var enginn sem tók neikvæða ákvörðun gagnvart Færeyringunum,“ segir Sigurður Ingi. „Við tókum alltaf frekar jákvæðar ákvarðanir ef það var eitthvað sem þurfti að taka ákvörðun um.“