Innlent

„Ótrúlega aum framkoma við Færeyinga“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, er afar ósáttur við þá staðreynd að skipverjar á færeyska skipingu Nærabergi fái ekki olíu, vatn og vistir í Reykjavík.

Skipið er í Reykjavíkurhöfn þar sem leyfi hefur fengist til að gera við vél þess. Vélarbilun varð vart er skipið var á leið með makrílafla sinn út úr grænlenskri lögsögu í gær. Jón segir ástæðu þess að Færeyingar fái ekki meiri aðstoð en raun ber vitni þá að Íslendingar standi í deilum við Færeyinga.

„Mér finnst þetta óheyrileg framkoma gangvart vinaþjóðinni  Færeyingum þótt heimilt sé að beita slíkum aðgerðum gegn skipum frá öðrum löndum, þegar veitt er úr fiskistofnum sem ósamið er um,“ segir Jón í grein á heimasíðu sinni.

„Samningarnir um makríl hafa strandað á frekju og furðulegri afstöðu ESB til makrílveiða og rétti strandríkja í þeim efnum. ESB hefur beitt Færeyinga rakalausum og miskunnarlausum þvingunaraðgerðum og háværar hótanir hafðar uppi gagnvart  Íslendingum. Þær hafa hvorki verið afturkallaðar né beðist afsökunar á. Nýjustu mælingar  á  magni og útbreiðslu makríl sýna að hann hefur sótt fram á nýjum beitilöndum langt norður og vestur í höf allt  í kringum suðurodda Grænlands. Magnið í íslenskri lögsögu er meir en nokkru sinni og sama í hafinu í kringum Grænland,“ segir Jón.

Ráðherrann fyrrverandi segir að forsendur ESB og Norðmanna um að þeir ættu allan makríls, hvar sem hann veidiist, séu löngu brostnar og aldrei verið fyrir hendi. Sem betur fer hafi Íslendingar ekki gengið í gildu ESB síðastliðinn vetur að semja aðeins um tólf prósenta hlutdeild.

„Færeyingum var nauðugur einn kostur að semja vegna viðskiptabanns ESB á útflutning þeirra sem fyrir Færeyinga voru hrein hryðjuverk. Af einhverri óskiljanlegri linkind þorðu Íslendingar ekki að standa með Færeyingum að  fulliu í stríðinu við ESB. Ég hefði lagt til i þeirri stöðu að Íslendingar Færeyingar og Grænlendingar gerðu samkomulag innbyrðis vegna makrílsins.“

Minnir Jón á þá aðstoð sem Færeyingar veittu Íslendingum í kjölfar hruns bankanna haustið 2008.

„Færeyingar voru þeir fyrstu sem veittu okkur stuðning þegar allar bankalínur voru lokaðar í upphafi hrunsins, þvert á aðgerðir annarra Norðurlanda og ESB ríkja. Að meina skipum frá þessu vinaríki okkar, Færeyjum um þjónustu þó svo ósamið sé um makrílinn er mjög litilmannlegt og okkur til mikils vansa. Kannski eigum við ekki hvað síst Færeyingum það að þakka að ekki var gengið inn í þá smánarlegu samningu sem Íslendingum stóð til boða síðastliðinn vetur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×