Erlent

Bretar koma Jasídum til hjálpar

Samúel Karl Ólason skrifar
Bretar vörpuðu töluverðu af lífsnauðsynlegum birgðum á SInfjar fjallgarðinn.
Bretar vörpuðu töluverðu af lífsnauðsynlegum birgðum á SInfjar fjallgarðinn. Vísir/AFP
Bretar vörpuðu í nótt birgðum til Jasída sem eru föst á Sinjar fjallagarðinum í Írak. Þangað flúðu þúsundir manna, sem tilheyra fámennum minnihlutahópi í Írak, undan ofsóknum samtakana Íslamskt ríki (áður ISIS).

Talið er að allt að 150 þúsund manns séu á svæðinu með litlar sem engar nauðsynlegar birgðir eins og vatn og hlý föt.

Þá gerðu Bandaríkjamenn loftárásir á meðlimi Íslamska ríkisins sem sækja gegna Jasídum. Farartæki og ýmiss búnaður var eyðilagður í árásunum, samkvæmt BBC.

Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Frakkland hafa einnig komið birgðum til þeirra sem halda til í fjallagarðinum.Jasídar fylgja ævafornum trúarbrögðum sem meðal annars fela í sér að örkin hans Nóa hafi strandað í Sinjar fjöllunum.

Bretar segjast ætla að halda áfram að koma birgðum til þeirra þar til búið sé að finna leið til að koma til hjálpar og í öruggt skjól.

Um tuttugu þúsund Jasídar komust yfir til Sýrlands undir skothríð frá vígamönnum, en hermenn Kúrda vörðu þau eftir bestu getu. AP fréttaveitan segir að neyð þeirra sé svo mikil að margir haldi til í flóttamannabúðum í Sýrlandi, en borgarastyrjöld hefur lengi staðið yfir þar.

Embættismaður í Sýrlandi segir AP að mörg börn hafi verið skilinn eftir sem hafi dáið úr þorsta og að mæður hafi einnig skilið eftir lifandi börn til að flýja Íslamska ríkið.

Vígamenn Íslamska ríkisins hafa framið mörg ódæði gagnvart minnihlutahópum í Írak og mörgum var gefinn sá úrslitakostur að snúast til Íslam eða deyja.

Sinjar fjöllin bjóða ekki upp á mikil skjól gegn veðri og vindum, en allt að 150 þúsund manns hafa flúið þangað.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×