Enski boltinn

United reynir að semja við Sporting um Rojo

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marcos Rojo í leik með Argentínu á HM.
Marcos Rojo í leik með Argentínu á HM. vísir/getty
Manchester United á enn í viðræðum við Sporting Lissabon um kaup á argentínska varnarmanninum Marcos Rojo, en portúgalska félagið hefur nú þegar neitað 15,9 milljóna punda tilboði United í hann.

Rojo bað um sölu á dögunum, en fékk hana ekki. Þess í stað var honum refsað af félaginu fyrir ófagmannlega hegðun og æfir nú einn. Hann fær ekki að taka þátt í leik Sporting um helgina.

Svo gæti farið að málið endi fyrir dómstólum, en þar sem United sárvantar varnarmann hið snarasta vill það semja við Sporting áður en svo fer.

Doyen Sports, eignarhaldsfélag sem á 75 prósent í Rojo, vill ólmt selja hann til United, enda fær það þriðjung kaupverðsins í sinn vasa. Það hefur sagst ætla að gera allt sem í þess valdi stendur til að verja hagsmuni leikmannsins.

Lagaflækja sem gæti tekið langan tíma er ekki eitthvað sem United má við núna því sem fyrr segir vantar Louis van Gaal varnarmann.

Luke Shaw er frá vegna meiðsla og þá er JonnyEvans tæpur fyrir fyrsta leik. RioFerdinand og NemanjaVidic eru farnir og þá ákvað ThomasVermaelen að ganga í raðir Barcelona í stað United.

Rojo er örvfættur og getur spilaði bæði sem miðvörður og vængbakvörður í nýja 3-4-1-2 kerfi Van Gaals, en Rojo spilaði sex af sjö leikjum Argentínu á HM þar sem liðið komst í úrslitaleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×