Í skoðunargrein í Fréttablaðinu í dag segir hún fullyrðingu Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, þess efnis að „erfitt sé að velja menn með þá eiginleika sem til þurfi að hafa með því að auglýsa starfið laust til umsóknar“ ekki standast skoðun.
Tilkynnt var í síðustu viku að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefði skipað þá Árna Þór Sigurðsson og Geir Haarde sendiherra frá og með næstu áramótum. Ekki hefur fengist staðfest hvar þeim sé ætlað að taka við starfi þótt hugmyndir séu um líklega áfangastaði. Um fyrstu pólitísku skipanir í embætti er að ræða frá árinu 2008. Þeir níu sendiherrar sem skipaðir voru í ráðherratíð Össurar komu úr röðum starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Stöðurnar voru aldrei auglýstar.
Ásta bendir á að sendiherrar í þjónustu íslenska ríkisins teljist til embættismanna samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt þeim lögum skal auglýsa öll embætti í Lögbirtingablaði.

Ásta bendir á að fyrsta skrefið í faglegu ráðningarferli sé að gera vandaða starfsgreiningu. Setur Ásta fram drög að slíkri greiningu. Hún segir alls ekki svo að skilja að hún treysti ekki nýráðnum ráðherrum fyrir starfinu, öðru nær.
„Það er hins vegar ljóst að til lengri tíma þurfum við að standa faglega að vali á fulltrúum Íslands á alþjóðavettvangi, enda hefur reynslan af faglegu mati við ráðningar að mestu verið góð þau 100 ár eða svo sem sú aðferðafræði hefur verið að þróast.“
Hún segir því fara fjarri „að lausnin sé að nota ófaglegt og jafnvel geðþóttamiðað ráðningarferli.“