Innlent

Líklegast að Geir fari til Washington og Árni til Moskvu

Randver Kári Randversson skrifar
Geir H. Haarde og Árni Þór Sigurðsson.
Geir H. Haarde og Árni Þór Sigurðsson. Vísir/Anton
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur skipað Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Árna Þór Sigurðsson, alþingismann Vinstri grænna, sem sendiherra í utanríkisþjónustunni. Eins og fram kom í gær veitir utanríkisráðuneytið ekki upplýsingar um það í hvaða sendiráði þeir muni starfa fyrr en gistiríki þeirra hafa samþykki þá.

Samkvæmt heimildum Vísis þykir líklegast að Geir H. Haarde verði sendiherra Íslands í Washington en hann mun lengi hafa haft áhuga á sendiherrastöðunni í Washington og hefur ráðning hans verið í undirbúningi undanfarið ár eða svo. Þá þykir líklegt að Árni Þór Sigurðsson verði sendiherra Íslands í Moskvu. Sú staða muni henta vel, en Árni stundaði nám í slavneskum málvísindum við Moskvuháskóla á árunum 1986-1988 og hefur góða rússneskukunnáttu.

Núverandi sendiherra Íslands í Washington er Guðmundur Árni Stefánsson og núverandi sendiherra Íslands í Moskvu er Albert Jónsson. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er algengast að sendiherrar þjóni í um 3-5 ár á hverjum stað, þótt ekki séu til fastmótaðar reglur um það.

Bæði Albert Jónsson og Guðmundur Árni Stefánsson voru skipaðir haustið 2011 og munu því hafa gegnt stöðum sínum í rúm 3 ár um áramótin þegar skipanir Geirs og Árna Þórs taka gildi. 


Tengdar fréttir

Geir H. Haarde skipaður sendiherra

Þá var Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður og fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar, einnig skipaður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.