Erlent

Tveir látnir af völdum ebólu í Nígeríu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Heilbrigðisyfirvöld í Nígeríu staðfestu í dag annað dauðsfallið þar í landi af völdum ebóluveirunnar. Fimm eru sýktir af veirunni og talið er að hátt í sjötíu séu það jafnframt. Allir þeir eru heilbrigðisstarfsmenn á spítala í Lagos í Nígeríu.

Embættismaður hjá fjármálaeftirlitinu í Líberíu lést í síðustu viku, en hann var á ferðalagi frá Líberíu þegar hann hneig niður á flugvellinum í Lagos. Þá lést hjúkrunarfræðingur sem meðhöndlaði sýkta manninn fyrr í þessari viku.

Onyebuchi Chukwu heilbrigðisráðherra Nígeríu sagði í dag að búið væri að grípa til viðeigandi ráðstafana og að allir þeir sem sýktir væru eða teljast sýktir séu í einangrun og sóttkví á spítalanum.

Miklar varúðarráðstafanir hafa verið gerðar víðs vegar um heiminn og hafa fjölmargir þjóðarleiðtogar lýst yfir áhyggjum sínum, en ebólan hefur nú lagt á níunda hundrað af velli og á annað þúsund eru sýktir af þessari mannskæðustu veiru í sögunni.

Flugfélagið British airways hefur aflýst öllum sínum flugferðum til Líberíu og Sierra Leone til að minnsta kosti 31. ágúst af ótta við faraldurinn. Flugfélagið hefur hingað til flogið fjórum sinnum í viku á milli Heathrow flugvallar í London og Freetown í Sierra Leone með viðkomu í Monróvíu í Líberíu. Þeir viðskiptavinir sem eiga flugmiða þangað geta fengið endurgreitt eða seinkað flugi sínu.






Tengdar fréttir

Ebóla berst til Nígeríu

Stjórnvöld í Nígeríu hafa staðfest að líberskur maður hefði látist úr Ebóluveiru þar í landi, fjölmennasta ríki í Afríku.

Hætta ferðamanna á smiti hverfandi

Ekkert lát er á sýkingahrinunni af völdum ebólaveiru sem hófst í Gíneu í byrjun febrúar á þessu ári, að því er fram kemur á vef Landlæknisembættisins.

Tveir Bandaríkjamenn greinast með Ebóla

Fjölmargir læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem vinna að meðhöndlun ebólufaraldursins í Vestur-Afríku hafa greinst með veiruna.

Bretar óttast ebólufaraldur

Ebólaveira er alvarleg ógn við Bretland að sögn Philip Hammond, utanríkisráðherra landsins.

Hæsta viðbúnaðarstigi lýst yfir

Yfirvöld í Nígeríu hafa lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi eftir að karlmaður frá Líberíu lést úr ebólu þar í landi í vikunni.

Ebóla heldur áfram að breiðast út

Tveir hafa nú greinst á skömmum tíma með ebólu í Nígeríu, fjölmennasta ríki í Afríku. Annar þeirra lést í síðustu viku og er læknir hans nú sýktur af þessari mannskæðu veiru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×