Erlent

Enn reynt að komast að samkomulagi í Kaíró

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Að minnsta kosti fimm Palestínumenn, þar af þrjú börn, létu lífið í 70 loftárásum Ísraelshers í dag. Tveir Ísraelsmenn særðust í árásum Hamas samtakanna. Viðræður beggja aðila í Kaíró tókust ekki. Hamas samtökin segja að Ísraelsmenn hafi ekki samþykkt skilmála sína. Ísrael segist ekki ætla að standa í samningaviðræðum á meðan flugskeytum væri skotið frá Gasa.

AP fréttaveitan segir þó að hluti sendinefndar Palestínumann hafi ekki yfirgefið Kaíró og að þeir vilji áframhaldandi viðræður, þrátt fyrir að vopnahléið sem stóð yfir í þrjá daga sé ekki í gildi lengur.

Formaður sendinefndar Palestínumanna sagði fjölmiðlum í dag að þeir vildu reyna áfram að komast að samkomulagi sem tryggi réttindi íbúa Palestínu. Þeir vilja að landamæri Gasasvæðisins verði opnuð, en Ísraelsmenn settu svæðið í herkví eftir að Hamas samtökin komust til valda árið 2007.

Ísrael segir lokun landamæranna nauðsynlega til að tryggja að vopn séu ekki flutt inn á svæðið. Þeir segja að ef þeir eigi að komast að samkomulagi þurfi það að fela í sér að Hamas leggi niður vopn.

Meðlimir sendinefndar Palestínu munu vera svartsýnir á að samkomulag náist og segja Ísraelsmenn vera á móti öllum tillögum sínum. Þær stefna á að vera áfram í Kaíró um nokkurra daga skeið, en með áframhaldandi átök á Gasa væri óvíst að nokkur árangur myndi nást.

Hér að neðan má sjá kort þar sem skaðinn á Gasasvæðinu er skoðaður.

Vísir/Graphicnews



Fleiri fréttir

Sjá meira


×