Íslenski boltinn

Stjarnan gæti farið til Póllands og FH til Aserbaídjan

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stjarnan hefði getað mætt enska úrvalsdeildarliðinu Hull City Tigers.
Stjarnan hefði getað mætt enska úrvalsdeildarliðinu Hull City Tigers. vísir/daníel
Takist Stjörnunni að vinna einvígi sitt gegn Motherwell í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu mætir liðið annaðhvort Nömme Kalju frá Eistlandi eða Lech Poznan frá Póllandi í þriðju umferð.

Dregið var til þriðju umferðar í dag, en Stjarnan gerði 2-2 jafntefli við skoska liðið Motherwell í gærkvöldi og mætast liðin öðru sinni á Samsung-vellinum í næstu viku.

Nömme Kalju, sem vann Fram samanlagt, 3-2, í fyrstu umferð forkeppninnar gerði sér lítið fyrir og vann Lech Poznan, 1-0, í fyrri leik liðanna. Poznan er þó talið mun sterkara lið og verður að teljast líklegur mótherji Stjörnunnar komist Garðbæingar áfram.

Stjarnan var með spennandi mótherjum á borð við Hull City Tigers, PSV Eindhoven og Tórínó í potti.

FH heldur væntanlega áfram að ferðast um austur-Evrópu ef það klárar einvígi sitt gegn hvítrússneska liðinu Neman Grodno. Liðin skildu jöfn, 1-1, í Hvíta-Rússlandi í gær.

FH mætir siguvegaranum úr viðureign Elfsborg frá Svíþjóð og Inter Bakú frá Aserbaídjan í næstu umferð, en Inter vann fyrri leikinn á útivelli, 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×