Erlent

Tveir ísraelskir hermenn féllu í hörðum bardögum við landamæri

Randver Kári Randversson skrifar
Ísraelskir hermenn við landamærin að Gaza.
Ísraelskir hermenn við landamærin að Gaza. Vísir/AFP
Tveir ísraelskir hermenn féllu í átökum við Hamas-liða á Gaza í dag, en hörð átök hafa verið við landamæri Ísraels og Gaza. Á vef Sky News kemur fram að tveir ísraelskir hermenn hafi fallið í átökum við Hamas-liða sem komu úr göngum frá Gaza-ströndinni. Hamas samtökin greindu fyrr í dag frá því að hermenn þeirra væru komnir á bak við varnarlínu Ísraelshers og ættu í hörðum skotbardögum.

Ísraelar hafa lýst því yfir að helsta markmiðið með innrásinni væri að eyðileggja göng sem Hamas-liðar hafa notað til að komast inn á ísraelskt landsvæði. Herinn tilkynnti í dag að 13 slík göng hafi fundist frá því innrásin hófst. Einnig segist herinn hafa skotið á 2350 skotmörk á Gaza, þar af 1100 flugskeytaskotpallar á undanförnum 12 dögum. Innrásin hefur þó ekki orðið til þess að stöðva flugskeytaárásir Hamas á Ísrael, en um 90 flugskeytum var skotið frá Gaza að Ísrael í dag.

Þrír ísraelskir hermenn hafa nú fallið frá því innrásin hófst á Gaza, auk þess sem tveir ísraelskir borgarar hafa fallið. Á sama tíma segja yfirvöld á Gaza að fjöldi fallinna Palestínumanna sé nú kominn í 335, þar af séu 70 börn.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna er á leið til svæðisins í von um að geta miðlað málum í deilunni. Ísraelsmenn hafa lýst því yfir að innrásin gæti staðið yfir í allt að tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×