Erlent

Kallar eftir atkvæðagreiðslu um sjálfstæði

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Leiðtogi Kúrda í Írak hefur farið fram á að löggjafar í sjálfstjórnarsvæði Kúrda undirbúi þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði. Atkvæðagreiðslan myndi líklega þýða endalok sameinaðs Írak.

Hernám herskárra súnníta á stórum landsvæðum í norður- og vesturhluta Írak veita Kúrdum tækifæri sem þeir hafa lengi beðið eftir. Þegar hafa þeir lagt hald á umdeild svæði við sjálfstjórnarsvæði sitt. Aldrei hafa Kúrdar verið nærri áratuga gömlum draumi um eigið ríki.

„Við verðum í betri aðstöðu og við munum hafa betri pólitísk vopn í höndum okkar,“ sagði Massoud Barzani, forseti ríkisstjórnar sjálfstjórnarsvæðis Kúrda við þing svæðisins.

„En hvernig munum við gera þetta? Hvaða skref verða tekin? Þið verðið að rannsaka þetta málefni og taka skref í þessa átt. Það er kominn tími til að ákvörðun með staðfestu, en ekki bíða eftir að aðrir ákveði fyrir okkur.“

AP fréttaveitan segir nýtt ríki Kúrda þó mæta mikilli alþjóðlegri mótspyrnu og þá sérstaklega frá Bandaríkjunum sem vilja ekki sjá Írak liðast í sundur.

Sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í Írak varð í raun til í fyrra Íraksstríðinu eftir að vesturveldin höfðu lokað lofthelgi landsins árið 1991. Síðan þá hefur stöðugleiki og hagsæld ríkt á svæðinu þrátt fyrir að pólitísk ólga og átök hafi einkennt önnur svæði.

Það var svo árið 2003, þegar Bandaríkin réðust inn í Írak í annað sinn, sem sjálfstjórnarsvæðið fékk formlega viðurkenningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×