Erlent

„Hamas er ábyrgt og Hamas mun borga“

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelskir hermenn standa vörð við vegatálma í Ísrael.
Ísraelskir hermenn standa vörð við vegatálma í Ísrael. Vísir/AFP
Lík þriggja ungra ísraelskra manna sem rænt var þann 12 júlí síðastliðinn fundust í dag. Yfirvöld í Ísrael saka Hamas samtökin um að hafa rænt þeim og myrt þá, en samtökin þvertaka fyrir það.

Þeir Naftali Frenkel og Gilad Shaar voru 16 ára gamlir og Eyal Yiafrach var 19 ára. Þeir fundust í skurði og hafði grjóti verið dreift yfir þá.

Samkvæmt BBC hafa yfirvöld í Ísrael nafngreint tvo menn sem liggja undir grun og eru þeir sagðir vera útsendarar Hamas. Ísraelski herinn hefur sett upp vegatálma og lokað stórum svæðum í kringum bæinn Hebron. Þar sáust piltarnir síðast á lífi og voru þeir að reyna að húkka sér far heim til sín.

Simon Peres, forseti Ísrael, segir alla þjóðina vera sorgmædda. „Þrátt fyrir sorg okkar, erum við staðráðin í að refsa hryðjuverkamönnunum harðlega.“

Forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, sagði atvikið vera afleiðingu samstarfs Hamas og Fata hreyfingarinnar, sem sættust í apríl síðastliðnum og mynduðu ríkisstjórn í Palestínu.

„Hamas er ábyrgt og Hamas mun borga.“ Við það bætti hann að piltarnir hefðu verið myrtir af villtum skepnum.

Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×