Íslenski boltinn

Umfjöllun,viðtöl og einkunnir: Þór - Valur 0-1 | Haukur Páll tryggði Val þrjú stig

Ólafur Haukur Tómasson skrifar
Vísir/Vilhelm
Valsmenn gerðu sér góða ferð norður yfir heiðar og unnu 1-0 sigur á Þór í dag. Haukur Páll Sigurðsson skoraði mark Vals snemma leiks eftir hornspyrnu en fleiri urðu mörkin ekki.

Leikurinn var mjög bragðdaufur og alls ekki mikið fyrir augað. Gestirnir í Val komust yfir eftir fimmtán mínútna leik þegar boltinn barst til Hauks Páls eftir mikinn atgang í vítateig Þórs eftir hornspyrnu. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Hauk sem kom boltanum í netið.

Nær ekkert marktækt gerðist í leiknum eftir það en leikurinn einkenndist af miklu hnoði, baráttu og óskemmtilegum fótbolta. Var það ekki fyrr en undir lok leiksins sem smá spenna komst í leikinn.

Besta tilraun Þórs í leiknum kom úr viðstöðulausu skoti Shawn Nicklaws sem Fjalar Þorgeirsson í marki Vals þurfti að hafa sig allan við og blakaði honum í þverslánna undir lok leiksins.

Tilraun Nicklaw var það næsta sem heimamenn komust að því að jafna metin áður en dómari leiksins, Guðmundur Ársæll Guðmundsson flautaði til leiksloka.

Með sigrinum koma Valsmenn í fimmtán stig í deildinni en Þór situr enn við botninn með fimm stig.

Magnús: Sýndum baráttu og viljaMagnús Gylfason, þjálfari Vals, var ánægður með kraftinn, viljann og þrautseigjuna í sínum mönnum í dag í viðtölum eftir leik. Magnús taldi að það hafi skilað Valsliðinu langt í þessum sigri.

„Leikurinn byrjaði vel hjá okkur, við náðum fljótlega yfirhöndinni og skoruðum snemma. Í seinni hálfleiknum leystist þetta aðeins meira upp í kýlingar og háa bolta, við ætluðum ekkert að fara í það en þegar leið á leikinn þá þéttum við hópinn og héldum þeim frá okkar marki.“

„Allt sem ég vildi sjá kom fram í dag ég vildi sjá vilja, baráttu og kraftur í mönnum. Auðvitað hefðum við getað tapað þessu niður þarna í lokinn þegar þeir urðu aðgangsharðari en við héldum þessu út. Við vildum gera betur fótboltalega en við vildum fyrst og fremst ná í stigin og sýna baráttu og vilja," sagði Magnús.

Í seinni hálfleik skipaði dómari leiksins Hauki Pál Sigurðarsyni, markaskorara Vals, að fara útaf og fá aðhlynningu en Haukur var vankaður eftir höfuðhögg. Hauki var á endanum en Magnús segir stöðuna á honum óvitaða.

„Hann segist hafa það ágætt. Hann svimaði eitthvað en er vonandi í lagi. Við óttumst að þetta sé heilahristingur en það kemur í ljós ef hann byrjar að æla í rútunni," sagði Magnús léttur.

Valur eru með fimmtán stig eftir níu leiki, en Magnús er ekki ánægður með stöðu Vals á þessum tímapunkti

„Ekki alveg. Við höfum spilað virkilega vel flest alla leikina en hefðum getað haft fleiri stig í viðbót en við erum að ná því róli sem við vildum. Við vildum reyna að ná Evrópusæti og erum enn í þeim pakka," svaraði Magnús.



Páll Viðar: Fúlt að ná ekki í stig á heimavelli„Við reyndum að berja á þeim í seinni hálfleik en það gekk ekki upp og það er hrikalega fúlt að takast ekki að ná í stig á heimavelli," sagði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, hundfúll þegar hann var spurður út í leik Þórs í dag.

Bæði liðin spiluðu bikarleik í síðustu viku og töpuðu bæði. Leikur Þórs og Breiðabliks fór í framlengingu en lítill kraftur var í leik Þórs.

„Það var ekki sprækt Þórs lið sem mætti hérna í þegar flautað var á. Það var greinilegt að þeir vildu þetta meira og voru greinilega ekki eins þreyttir ef menn vilja meina að þetta sé vegna þess hve stutt hefur verið á milli leikja hjá okkur.“

„Þeir voru grimmari en við og okkur gekk illa að ná að opna þá og vinna seinni boltana sem er oft mjög mikilvægt í leikjum þar sem boltinn er oft meira í loftinu en á jörðinni. Þeir voru grimmari og uppskáru líklega verðskuldaðan sigur," viðurkenndi Páll.

Chukwudi Chijindu markahæsti leikmaður Þórs á síðustu leiktíð lætur enn bíða eftir sér og er ekki enn búinn að spila leik í sumar en hann hefur verið meiddur. Hann hefur verið á bekknum í undanförnum leikjum Þórs, er hann að koma til?

„Vonandi spilar hann næsta leik en á meðan hann er ekki full klár í að berjast og slást eins og hinir strákarnir þá verður hann ekki valinn en um leið og hann getur það þá er ég viss um að hann komi til baka sterkari en nokkru sinni áður,"

Þór situr við botninn á töflunni og er Páll Viðar óánægður með spilamennsku og frammistöðu sinna manna það sem af er liðið leiktíðar.

„Klárleg vonbrigði, við erum bara með fimm stig eftir níu leiki og ef þetta heldur áfram þá förum við lóðrétt niður. Ég trúi að það sé meira skap í okkur Þórsurum en það að við förum að kasta handklæðinu strax," sagði Páll.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×