Erlent

„Við tottuðum Bandaríkjamenn“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Radek Sikorski, utanríkisráðherra Póllands.
Radek Sikorski, utanríkisráðherra Póllands. VISIR/AFP
Radek Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, sem almennt er talinn einn helsti stuðningsmaður Bandaríkjanna í Evrópu, sagði á upptöku sem kom upp á yfirborðið nú á sunnudag að bandalag ríkjanna tveggja væri „einskis virði“.

„Samband Bandaríkjanna og Póllands er einskis virði. Það er meira að segja skaðlegt því það býr til falska öryggistilfinningu í Póllandi,“ segir Sikorski meðal annars á hljóðbút sem birst hefur úr samtali hans við Jacek Rostowski, fyrrum fjármálaráðherra Póllands.

Ekki er vitað hver tók upp samtali en það er talið hafa átt sér stað í vor. Getgátur eru uppi um að rússneska leyniþjónustan eigi í hlut í ljósi þess að henni hefur einnig verið gefið að sök að hafa lekið álíka pínlegu samtali  í febrúar þar sem háttsettur bandarískur stjórnmálamaður segir Evrópusambandinu meðal annars að „fara í rassgat.“

Eftir að viðmælandi Sikorskis spyr hvers vegna hann efist um bandalag ríkjanna segir utanríkisráðherrann það vera „kjaftæði“.

„Við munum þurfa að kljást bæði við Þjóðverja og Rússa og við munum halda að allt sé í stakasta lagi því við tottuðum Bandaríkjamenn. (Við erum) fávitar. Algjörir fávitar,“ segir Sikorski á hljóðbútnum. Búist er við því að allt samtalið muni rata í pólska fjölmiðla á næstu dögum.

Í samtalinu lýsir Sikorski einnig hugfari Pólverja sem „Murzyńskość“, en hugtakið hefur verið þýtt sem það að „hugsa eins og blökkumaður“.

Lekinn er talinn hinn meinlegasti fyrir flokk Sikorskis, Platforma Obywatelsk, sem hefur lengi þurft að kjlást við óvarlegt orðfæri flokksmanna sinna og hafa stjórnmálaskýrendur þar í landi lýst honum sem miklu reiðarslagi fyrir áframhaldandi samskipti Bandaríkjanna og Póllands.

Forseti Póllands, Bronislaw Komorowski, árétti í dag í samtali við þarlenda fjölmiðla að Bandaríkin væru ennþá mikilvægur bandamaður landsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×