Erlent

Óttast að barnavændi muni margfaldast í kringum HM

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Börn allt niður í tíu ára aldur eru neydd til að selja líkama sinn til að afla fjár.
Börn allt niður í tíu ára aldur eru neydd til að selja líkama sinn til að afla fjár. vísir/afp
Barnavændi hefur aukist mikið í Brasilíu upp á síðkastið. Börn allt niður í tíu ára aldur eru neydd til að selja líkama sinn til að afla fjár, en talið er að með því að selja barn í vændi á meðan heimsmeistaramótinu stendur sé hægt að þéna nógu mikinn pening til þess að brauðfæða fjögurra manna fjölskyldu í heilt ár.

Búist er við að um sex hundruð þúsund erlendir knattspyrnuunnendur muni leggja leið sína til Brasilíu til að fylgjast með heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem hefst á fimmtudag og óttast er að barnavændi muni margfaldast í kringum keppnina.

Börnin, sem tekin eru frá fátækari svæðum landsins, eru látin neyta eiturlyfja, þá einna helst krakks, klædd í djarfan fatnað og förðuð. Til að seðja hungur þeirra eru þau látin lykta af lími. Þá eru börn frá fátækum svæðum í öðrum heimsálfum, til dæmis Afríku, flutt inn til landsins á vegum rússnesku mafíunnar.

Mannréttindasamtök segja yfirvöld í Brasilíu líta til hliðar þegar kemur að þessu máli og segja engan vilja vera af þeirra hálfu til að stöðva þennan mikla vanda. Forseti Brasilíu, Dilma Rousseff, sagði þó alla ferðamenn velkomna til Brasilíu vegna heimsmeistaramótsins, þeir yrðu hinsvegar allir að gera sér grein fyrir því að vændiskaup á börnum yrðu ekki liðin.

Barnavændi í Brasilíu er með því mesta í heiminum og hefur verið vandamál lengi. Vandamálið er slíkt að landið fylgir fast á hæla Tælands sem áfangastaður fyrir barnaníðinga, slíkt er framboðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×