Innlent

„Harkalega ráðist á oddvita flokksins í borginni"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sigmundur Davíð segir að harkalega hafi verið ráðist á oddvita flokksins í Reykjavík.
Sigmundur Davíð segir að harkalega hafi verið ráðist á oddvita flokksins í Reykjavík.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að harkalega hafi verið ráðist á oddvita flokksins í borginni í kosningabaráttunni. Þessi lýsti hann yfir í viðtali í Ríkissjónvarpinu um hálf tvö í nótt.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar í borginni, var mikið í umræðunni, eftir ummæli hennar um lóðarúthlutun til Félags múslima. Ummælin féllu fyrir átta dögum síðan og hafa verið ofarlega á baugi í fréttaflutningi síðan.

Sigmundur segir að moskumálið hafi líklega vakið athygli kjósenda á öðrum málum flokksins, eins og skipulagsmálum. „Svo hefur flugvallarmálið líklega verið mikilvægara en menn trúðu í upphafi.“

Honum var bent á að gagnrýni á Sveinbjörgu hafi einnig komið innan úr Framsóknarflokknum. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir þingflokksformaður og Samband ungs Framsóknarfólks, lýstu yfir vanþóknun sinni á ummælum Sveinbjargar.

Sigmundur segir að ummæli Sveinbjargar hafi ekki verið meðvitað útspil til að vekja athygli á framboðinu. „Þetta var eitthvað sem hafði verið til umræðu en ekki upp á yfirborðinu.“ En hann viðurkennir þó að ummælin hafi vakið athygli á Framsókn í Reykjavík og öðrum málefnum flokksins. Hann sagði kosningabaráttuna geta verið erfiða fyrir framboð ef þau næðu ekki að láta rödd sína heyrast.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.