Erlent

Múslimi brást við fordómum með því að redda heimilislausum manni vinnu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér eru þeir félagarnir. Chowdhury til vinstri og Gallon til hægri.
Hér eru þeir félagarnir. Chowdhury til vinstri og Gallon til hægri.
Þegar heimilislaus maður kallaði fordómafull skilaboð að múslimanum Aminur Chowdhury, frá Bradford á Englandi, ákvað hann að ræða málin. Heimilslaus maður að nafni Ben Gallon fordæmdi Chowdbury fyrir trúarskoðanir hans og kallaði að honum ókvæðisorð þegar þeir mættust.

Í staðinn fyrir að hrópa á manninn til baka ákvað Chowdhury að bjóða manninum upp á bjór. „Ég vildi bara ræða málin við hann. Við spjölluðum í gott korter,“ útskýrir hann. Spjall þeirra endaði með því að Chowdhury tók niður upplýsingarnar um hinn heimilislausa Gallon. Chowdhury vildi hjálpa honum að finna vinnu og komast á fætur.

Gallon fékk svo símtal daginn eftir. „Ég hélt að hann væri bara að vera kurteis þegar hann sagðist vilja hjálpa mér að finna vinnu. En svo hringdi hann daginn eftir og bauðst til að sækja mig og skutla mér í atvinnuviðtal. Hann kom og sótti mig og fór með mér í viðtalið. Tíu mínútum seinna var ég kominn með vinnu.“

Og Chowdhury fannst ekki nóg að redda Gallon vinnu. Hann hjálpaði Gallon að finna íbúð með viðráðanlegu leiguverði. Gallon sér eftir þessum fordómafullu köllum.

„Ég hef lært mína lexíu. Það var einfaldlega ekkert sem réttlætti þetta sem ég sagði. Og Aminur á heiður skilinn að hafa tekið þessu svona. Þetta sem ég sagði endurspeglaði ekki mínar skoðanir í raun og veru, því ég veit að innst inni er ég ekki rasisti. Aminur hefur hjálpað mér að komast af stað í lífinu og allt er á uppleið. Þetta er stórkostlegt,“ segir Gallon.

Chowdhury segir að þetta sé langbesta leiðin til þess að takast á við fordóma; að sýna fólki þolinmæði og ræða málin. „Ég trúi því að ef maður bregst við fordómum með því að sýna fólki umhyggju og alúð fái maður það sama margfalt tilbaka. Eina leiðin að takast á við fordóma er að sýna umburðarlyndi og fara ekki niður á sama plan og hinir. Ég get ekki sagt fólki hvaða skoðanir það á að hafa, en ég get átt minn þátt í að upplýsa það,“ útskýrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×