Erlent

Nam ekki staðar þrátt fyrir andlát kærustunnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mynd af bíl mannsins sem lögreglan í Warren birti á heimasíðu sinni
Mynd af bíl mannsins sem lögreglan í Warren birti á heimasíðu sinni
Karlmaður frá Detroit keyrði með lík kærustu sinnar þvert yfir Bandaríkin eftir að hún lést í bíl hans á leiðinni.

Var maðurinn að keyra frá Arizona til Michigan aðfaranótt mánudags þegar kærasta hans gaf upp öndina.

Í stað þess að nema staðar eftir að konan lést, en andlát hennar er rakið til lyfsins OxyContin, ákvað maðurinn að klára aksturinn af ótta við að þurfa skilja hana eftir eina á sjúkrahúsi í ókunnu fylki. Talið er að hún hafi látið lífið annað hvort í Oklahoma eða Texas.

„Mér þótti bara of vænt um hana,“ sagði maðurinn, Ray Tomlinson, í samtali við þarlenda fjölmiðla þegar hann var spurður um ástæðu þess að hafa ekki stöðvað á leiðinni, sem telur rúma þrjú þúsund kílómetra.

Tomlinson kynntist kærustu sinni í fyrra en þá var hún heimilislaus og beið eftir því að þáverandi kærsti hennar losnaði úr fangelsi. Ray Tomlinson aðstoðaði hana við að komast aftur á réttan kjöl, leyfði henni að gista hjá sér og tókust ástir með þeim í kjölfarið.

Konan kljáðist við geðræn vandamál og var háð margvíslegum fíknefnum sem leiddi til þess að hún var alls níu sinnum lögð inn á heilsugæslustofnanir í Arizona í aðdraganda bílferðarinnar örlagaríku.

Lík konunnar var byrjað að rotna þegar Tomlinson komst loks á leiðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×