Erlent

Kínverjar láta hart mæta hörðu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Heræfing í Xinjiang-héraði.
Heræfing í Xinjiang-héraði. Visir/afp
Kínversk stjórnvöld hafa dæmt níu manns til dauða fyrir aðild sína að hryðjuverkaárásum í Xinjiang-héraði í vesturhluta landsins.

The Guardian greinir frá þessu.

Aðrir 72 hafa verið dæmdir til vægari refsinga og 29 kínverjar handteknir í viðamiklum aðgerðum þarlendra yfirvalda. Markmið þeirra er að hafa hendur í hári ódæðismannanna sem urðu 43 að bana í sprengjuárás þann 22. maí síðastliðinn.

Á þeim 15 mánuðum sem Xi Jinping hefur verið forseti Kína hafa átt sér stað fjórar hryðuverkaárásir í landinu og er mikill þrýstingur á ríkisstjórn Jinpings að stemma stigu við vargöldinni sem ríkt hefur Kína á undanförnum misserum.

Undir lok aprílmánaðar varð sjálfsmorðssprengjuárás tveimur að bana í lestarstöð í Ürümqi, í mars voru 29 kínverjar skornir og stungnir til bana á lestarstöð í Kunming og í október á síðasta ári keyrðu þrír menn sendiferðabíl í gegnum hóp fólks við Torg hins himneska friðar sem dró tvo ferðamenn til dauða.

Kínversk stjórnvöld takmarka gífurlega upplýsingaflæðið frá Xinjang-héraði og því hefur blaðamönnum og óháðum rannsakendum reynst þrautin þyngri að staðfesta þær fregnir sem berast þaðan. Ekki hefur því fengist endanlega úr því skorið hvort ódæðismennirnir séu íslamskir aðskilnaðarsinnar eins og þarlend yfirvöld hafa haldið fram. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×