Jonathan Glenn kom reyndar ÍBV yfir strax á sjöttu mínútu en Fylkismenn voru fljótir að snúa leiknum sér í vil með mörkum Andrew Sousa og Gunnars Arnar Jónssonar.
Andrés Már Jóhannesson innsiglaði svo sigurinn eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Þetta voru fyrstu stig og fyrstu mörk Fylkismanna í Pepsi-deildinni í sumar.
ÍBV er með eitt stig eftir þrjár umferðir en Þórsarar eru nú eina liðið sem er enn án stiga.
Leikurinn fór alls ekki rólega af stað en ljóst var að bæði lið ætluðu sér ekki færri en þrjú stig í kvöld. Glenn opnaði markareikning sinn hjá ÍBV með marki eftir sex mínútna leik í kvöld en þá fylgdi hann eftir skoti Víðis Þorvarðarsonar. Glenn hefur fengið mikla gagnrýni eftir fyrstu leiki mótsins en svaraði þeim gagnrýnisröddum í kvöld.
Eftir að heimamenn komust yfir efldust gestirnir og áttu nokkur marktækifæri en á 18. mínútu skoraði Sousa mark beint úr aukaspyrnu, rétt við vítateigslínu. Sousa kom til liðsins fyrir mót en hann lék mjög vel í kvöld og var besti maður vallarins að mati Vísis.
Fylkismenn léku á alls oddi næstu mínútur og þegar að Gunnar Örn fékk færi rétt utan vítateigs söng boltinn í þriðja skiptið í markinu en hann átti fast skot á nærstöng sem Abel Dhaira markvörður Eyjamanna réði ekki við. Næstu mínútur eftir markið voru rólegar en gestirnir áttu þó skalla í stöng.
Leikmenn Fylkis létu Eyjamenn oft á tíðum líta illa út en þeir sýndu á sér allt aðrar hliðar en þær sem fengu að líta dagsins ljós í síðasta leik þeirra, gegn FH-ingum þar sem þeir steinlágu 3-0. Sadmir Zekovic kom einnig til liðsins fyrir mót en hann lék vel í sínum fyrsta leik i byrjunarliði.
Skiptingar Eyjamanna hafa oft á tíðum valdið miklum usla hjá gestum Hásteinsvallar en í kvöld réðu Fylkismenn vel við þær og komust Eyjamenn ekki í mörg færi.
Árbæingar áttu góða sókn undir lok leiksins en þá skoraði Andrés Már mark eftir að hann fékk boltann í teignum frá Zekovic. Andrés skaut boltanum upp í þaknetið en þá var öll von úti hjá heimamönnum.
Ásmundur: Sérstaklega gott að vinna í Eyjum

„Mér fannst við byrja leikinn illa, en við vorum þá töluvert á eftir þeim og gáfum þeim of mikið pláss og tíma. Þeir komust verðskuldað yfir en ég er ánægður með hvernig menn svöruðu því. Þetta var nokkuð sannfærandi sigur.“
„Síðasti leikur var svona „one-off“ - hann var mjög slakur. Ef maður lítur aftur í tímann var þetta okkar langslakasti leikur og við viljum dvelja sem minnst við hann,“ bætti Ásmundur við en hann var gríðarlega ánægður með sína menn sem voru mun betri aðilinn í kvöld.
Gunnar Örn: Kærkominn sigur
„Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur, það var að duga eða drepast fyrir okkur núna. Við vorum búnir að fara á erfiða útileiki í fyrstu leikjunum og erum búnir að fara á þrjá af fjórum erfiðustu útivöllum landsins. Þetta var því hrikalega kærkominn sigur,“ sagði Gunnar Örn Jónsson, leikmaður Fylkis, eftir fyrsta sigur mótsins hjá Árbæingum.
„Við ætluðum að halda áfram að spila boltanum og ná að klára þetta. Það kom í lokin með glæsilegu marki hjá Adda.“
Fylkismenn steinlágu fyrir FH-ingum í Kaplakrika á fimmtudaginn en liðið spilaði mun betur í kvöld.
„Við vorum með allt bókstaflega niður um okkur á móti FH, við vorum ekki tilbúnir í þann leik, hugsuðum okkar gang og fórum yfir málin og í dag leit þetta betur út.“
Brynjar Gauti: Þurfum að taka okkur á

„Við byrjuðum ágætlega og náðum að setja á þá mark strax í byrjun. Þá var eins og menn héldu að þetta væri komið og að við þyrftum ekki að hafa fyrir þessu, þetta var skelfilegt.“
„Við ætluðum að byggja mótið á því að vera þéttir og ná svo að pota inn einum eða tveimur mörkum. Við fáum á okkur þrjú mörk hér á heimavelli og þurfum aðeins að fara að taka okkur á,“ sagði Brynjar að lokum en hann vildi meina að það ætti ekki að gerast að Eyjamenn væru ekki komnir með stig úr fyrstu tveimur heimaleikjum deildarinnar.
Sigurður Ragnar: Þurfum að fara yfir og bæta okkar leik

Aðspurður hvort eitthvað jákvætt væri hægt að taka út úr leiknum nefndi Sigurður það að Jonathan Glenn hefði skorað sem væri jákvætt.
„Hann hefur fengið útreið í fjölmiðlum, en það hefur ekki komið fram að hann var meiddur í þrjár vikur fyrir mót og er hann því eftir á í formi og er að verða betri og betri.“
„Leikirnir verða ekki léttari og eru FH-ingar með eitt af tveimur bestu liðum deildarinnar að mínu mati og verður það því mjög erfiður leikur. Við þurfum að fara yfir okkar leik og reyna að bæta hann fyrir leikinn gegn FH-ingunum.“