Erlent

„Fólk horfir með kvíða til næstu daga og vikna“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fjórir úkraínskir hermenn létust  í hörðum átökum milli hersveita og liðsmanna aðskilnaðarsinna í borginni Sloviansk í dag. Íslendingur, sem leiðir eftirlitssveit á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Kænugarði, segir fólk óttast að átökin stigmagnist með degi hverjum og breiðist hratt út. 

Úkraínski herinn lokaði í gær þjóðveginum til Slóvíansk, en borgin hefur meira og minna verið á valdi vopnaðra aðskilnaðarsinna síðustu vikur, þar sem þeir hafa komið sér fyrir í opinberum byggingum og komið upp vegatálmum til að hindra að úkraínski herinn komist inn í borgina.

Til harðra átaka kom í dag þegar herinn sótti inn í miðborgina. Staðfest er að fjórir hafi látið lífið og tugir særst. Þá var úkraínsk herþyrla skotin niður í útjaðri borgarinnar.

Átökin í Úkraínu hófust í Kænugarði í nóvember og færðust síðan yfir á Krímskaga og í austurhéruðin. Síðustu daga hafa svo blossað upp átök í suðurhluta landsins og hátt í fjörtíu létust á föstudag þegar kveikt var í byggingu í Odessa þar sem aðskilnaðarsinnar höfðu leitað skjóls.

Stefán Haukur Jóhannesson hefur starfað á vegum ÖSE í Kænugarði síðustu vikur. Hann segir fólk óttast að átökin í Odessa séu fyrirboði um það sem koma skal, og að spennan muni stigmagnast í aðdraganda forsetakosninganna 25 maí næstkomandi.

„Vissulega er undirliggjandi spenna og fólk horfir með kvíða til næstu daga og vikna. Það sem er að gerast í austurhluta landsins og núna suðurhlutanum er alveg skelfileg þróun mála. Fólk vonast til að það róist aðeins en það er mjög erfitt að segja til um framhaldið,“ segir Stefán. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×