Erlent

„Kominn tími til að brenna alpahúfuna og grafa bláa kjólinn“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Greinin birtist í heild sinni í Vanity Fair á morgun.
Greinin birtist í heild sinni í Vanity Fair á morgun. vísir/afp
Monica Lewinsky, fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins sem vakti heimsathygli fyrir ástarsamband sitt við Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur skrifað opinskáa grein í tímaritið Vanity Fair. Hún hefur hingað til sem minnst viljað tjá sig um sambandið.

Í greininni segir hún frá upplifun sinni af hneykslismálinu sem upp komst um árið 1998. Hún segir að vissulega hafi Clinton misnotað vald sitt sem yfirmaður hennar, en sambandið hafi verið með samþykki beggja.

„Það er kominn tími til að brenna alpahúfuna og grafa bláa kjólinn,“ segir Lewinsky í greininni, en hún sást gjarnan með alpahúfu á höfðinu þegar málið stóð sem hæst. Þá varð blár kjóll í hennar eigu umtalaður en á honum fannst lífsýni úr forsetanum.

Lewinsky segir móður sína hafa haft miklar áhyggjur af sér á sínum tíma og óttast að dóttirin fyrirfæri sér vegna þeirrar niðurlægingar sem hún mátti þola. Hún segist þó aldrei hafa reynt að fyrirfara sér þó hún hafi glímt við sjálfsvígshugsanir um tíma.

Hún segir umtalað sjálfsvíg Tylers Clementi hafa vakið sig til umhugsunar en hann náðist á myndband þar sem hann kyssti annan karlmann. Myndbandinu var dreift víða á netinu og í kjölfarið svipti hann sig lífi.

„Ég taldi að hugsanlega gæti ég hjálpað öðrum í svipaðri stöðu með því að deila minni sögu,“ segir Lewinsky og bætir því við að árið 1998 hafi hún verið „niðurlægðasta manneskja heims“ og hugsanlega fyrsta fórnarlamb neteineltis á heimsvísu.

Grein Lewinskys birtist í heild sinni í Vanity Fair á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×