Erlent

Spænska þingið hafnar katalónsku frumvarpi um sjálfstæði

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar segist ekki geta ímyndað sér Spán án Katalóníu.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar segist ekki geta ímyndað sér Spán án Katalóníu. Vísir/AFP
Kosið var um hvort spænska héraðið Katalónía fengi að halda atkvæðagreiðslu um sjálfstæði sitt á spænska þinginu í gær. Frumvarpinu var hafnað með yfirþyrmandi meirihluta. BBC segir frá.

Eftir sjö klukkustunda umræðu kusu þingmenn um frumvarpið. 299 þingmenn kusu gegn því, 47 með því og einn þingmaður sat hjá.

Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, hefur áður varað við því að lýsti Katalónía yfir sjálfstæði sínu frá Spáni gæti það leitt til efnahagslegrar vosbúðar fyrir Katalóníu jafnt sem Spán.

Raddir katalónskra sjálfstæðissinna hafa orðið háværari síðan efnahagskreppan skall á árið 2008. Deilur á spænska þinginu snúast helst um hvort sjálfstæðisyfirlýsingin brjóti á spænsku stjórnarskránni eður ei.

Rajoy telur kosninguna sem katalónska stjórnin áætlar að leggja fyrir héraðið vera ólöglega þar eð atkvæðagreiðslur um sjálfstæðisyfirlýsingar ættu að vera lagðar fyrir alla þjóðina en ekki aðeins eitt hérað samkvæmt spænskum lögum.

„Sameinuð sigrum við öll, en sundruð töpum við í sameiningu. Málið snýst fremur um tilfinningagildi en lagabókstaf - ég get ekki ímyndað mér Spán án Katalóníu," sagði forsætisráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×