Erlent

Hómópatía engu áhrifameiri en lyfleysa

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Hómópatísk lyf framleidd í verksmiðju.
Hómópatísk lyf framleidd í verksmiðju. Vísir/AFP
Ný rannsókn sýnir fram á að hómópatía, óhefðbundin og umdeild læknisaðferð, hafi álíka læknisfræðileg áhrif og lyfleysa. The Guardian greinir frá.

Ástralska heilsurannsóknarráðið stóð fyrir rannsókninni þar sem læknisfræðileg áhrif hómópatíu á 68 mismunandi kvilla voru grannskoðuð. Niðurstaðan er sú að ekki hafi fundist nokkur vísbending um notagildi aðferðafræðinnar.

Hómópatía gengur út á þá hugmynd að líkt lækni líkt. Þá myndi maður sem þjáist af höfuðverk innbyrða efni sem orsakar höfuðverk, og á það að lækna höfuðverkinn.

Meðal kvilla sem voru rannsakaðir má telja astma, liðagigt, svefntruflanir, kvef, flensu, kóleru, brunasár, malaríu og heróínfíkn. Aðferðir hómópatíunnar reyndust svo gott sem vitagagnslausar í meðferðum við fyrrnefndum sjúkdómum og meinsemdum.

Ekki ein einasta rannsókn sem er vel úthugsuð og telur nægilega marga þátttakendur hefur gefið í skyn að hómópatía hafi nokkur læknisfræðileg áhrif umfram lyfleysu," sagði í rannsókninni.

Læknar víðsvegar um heim hafa tekið niðurstöðum rannsóknarinnar fagnandi, en aðferðir hómópatíu hafa lengi verið gagnrýndar innan læknastéttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×