Erlent

Rætt um auknar refsiaðgerðir gegn Rússum

Íbúar á Krímskaga sem vilja ganga Rússum á hönd fagna niðurstöðunni.
Íbúar á Krímskaga sem vilja ganga Rússum á hönd fagna niðurstöðunni. Vísir/AFP
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna hittast í Brussel fyrir hádegi í dag til þess að ræða frekari viðskiptaþvinganir gegn Rússum í kjölfar þess að íbúar á Krímskaga ákváðu í atkvæðagreiðslu að ganga Rússum á hönd og kljúfa sig frá Úkraínu.

Þeir íbúar Krímskaga sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni voru vægast sagt á einu máli. Níutíu og sex, komma sjö prósent þeirra kusu með tillögunni sem gerir ráð fyrir Krímskagi segi sig frá Úkraínu og verði hluti af ríkjasambandi Rússlands.

Mikhail Malyshev yfirmaður kjörstjórnar á Krímskaga kynnti þessar niðurstöður á blaðamannafundi nú í morgun. Kjörsókn er sögð hafa verið áttatíu og þrjú prósent og um tólfhundruðþúsund manns tóku þátt í henni.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna og Vladimír Pútín, hinn rússneski kollegi hans, ræddu málið í gegnum síma í gær. Í máli Obama kom skýrt fram að Bandaríkjamenn telji kosninguna ólöglega og að hún verði aldrei viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Þá bætti forsetinn við að frekari viðskiptaþvinganir á Rússa komi vel til greina.

Til umræðu hjá Utanrsíkisráðherrum ESB verður meðal annars að ógilda vegabréf og frysta eignir háttsettra rússneskra embættismanna. ESB hefur þegar lýst því yfir að atkvæðagreiðslan hafi verið ólögleg, en rússneskar hersveitir tóku öll völd á skaganum í síðasta mánuði.

Rússar hafa hinsvegar lýst því yfir að þeir viðurkenni úrslitin og að næstu skref séu að að samþykkja Krímskaga inn í Rússneska ríkjasambandið en málið verður rætt í Rússnesku dúmunni á föstudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×