Innlent

Flókin staða en Eygló fer til Sotsjí

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eygló Harðardóttir mun vera viðstödd Ólympíumót fatlaðra í Sotsjí.
Eygló Harðardóttir mun vera viðstödd Ólympíumót fatlaðra í Sotsjí. Vísir/GVA
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, mun vera viðstödd Ólympíumót fatlaðra í Sotsjí en hún segir í samtali við fréttastofu RÚV að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld.

Fyrir Vetrarólympíuleikana í Sotsjí í febrúar voru stjórnvöld í Rússlandi gagnrýnd harðlega fyrir þau mannréttindabrot sem eiga sér stað í landinu og þá sérstaklega gagnvart samkynhneigðum.

Ákvörðun Eyglóar er því mun erfiðari nú þegar allt er á suðupunkti við Krímskaga.

„Það hefur í raun ekkert verið einfalt við að fara á Ólympíumótið og þetta flækir stöðuna einn frekar. En hins vegar taldi ég mikilvægt að sýna okkar frábæru íþróttamönnum sem eru að taka þátt þarna minn stuðning," sagði Eygló Harðardóttir í samtal við RÚV.

Ráðherrann mun fylgjast grannt með gangi mála í samráði við utanríkisráðuneytið.

„Við höfum verið að kalla eftir upplýsingum um það hvort það hafi breyst afstaða annarra Norðurlanda varðandi það að mæta á mótið. Okkar íþróttamenn eru þegar mættir á staðinn og við höfum ekki heyrt um það að afstaða annarra hafi breyst," sagði Eygló í samtali við RÚV.

Eygló stefnir að því að ferðast til Sotsjí þann 12. mars.


Tengdar fréttir

ÖSE miðlar málum milli Úkraínu og Rússlands

Vladímír Pútín Rússlandsforseti gekk að tillögu Angelu Merkel Þýskalandsforseta um að koma á starfshópi sem safnaði saman staðreyndum og héldi utan um samskipti vegna málefna Úkraínu. Hópinn leiði Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE.

Gunnar Bragi fundar með sendiherra Rússa

Utanríkisráðherra segir íslensk stjórnvöld leggja þunga áherslu á að Rússar láti umsvifalaust af öllum hernaðaraðgerðum í Úkraínu og fari að alþjóðalögum.

Varað við ferðalögum til Úkraínu

Utanríkisráðuneytið ráðleggur Íslendingum frá ónauðsynlegum ferðalögum til Úkraínu og er þeim alfarið ráðlagt gegn ferðum til Krímskaga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.