Enski boltinn

Eiður Smári: Ætla að sýna hvað ég get

Tómas Þór Þórðarson skrifar
mynd/bwfc.co.uk
Eiður Smári Guðjohnsen var formlega kynntur til sögunnar sem leikmaður Bolton á blaðamannafundi félagsins nú rétt í þessu og þar sat hann fyrir svörum blaðamanna sem mættu á fundinn.

„Það er frábært að vera kominn aftur. Þetta er svolítið eins og ferðast aftur í tímann, en ég finn enn fyrir sama vinalega andrúmsloftið sem ég mundi eftir,“ sagði Eiður um endurkomuna.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að vera kominn aftur. Mér líður eins og það séu 100 ár síðan ég var hérna síðast. Þetta líður svo hratt.“

Eiður Smári fékk ekki leikheimild fyrir síðasta leik Bolton þegar liðið gerði jafntefli við Ipswich, en Bolton hefur verið að rífa sig upp úr kjallaranum undanfarnar vikur.

„Neil Lennon hefur komið með hugarfar sigurvegarans til félagsins, en liðið getur enn bætt sig. Við hefðum átt að vinna Ipswich í síðasta leik. Það var svekkjandi að vinna ekki. Við vorum óheppnir,“ sagði Eiður sem var seldur til Chelsea sumarið 2000 og fagnaði síðan Englandsmeistaratitlinum eftir sigur á Rebook-vellinum fimm árum síðar.

„Við komumst ekki upp um deild og þá fékk ég tilboðið frá Chelsea. Ég gat ekki sagt nei, en það var erfitt að yfirgefa Bolton.“

„Að vinna úrvalsdeildina og fagna á Bolton-vellinum var eitthvað sem ég gleymi aldrei. Ég man eftir stuðningsmönnum Bolton að syngja nafnið mitt.“

„Ég á bara góðar minningar frá því ég var hér síðast. Mér líður strax eins og ég sé kominn heim. Það var ekki erfið ákvörðun að koma aftur,“ sagði Eiður.

Eiður segist spenntur fyrir því að byrja að spila með Bolton og vill hann klífa upp töfluna með liðinu.

„Það er mikið af fótbolta eftir og ég get ekki beðið eftir því að byrja. Ég verð hérna til loka tímabilsins og það er möguleiki á að vera lengur. Ég er bara staðráðinn í að njóta verunnar og sýna hvað ég get,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.


Tengdar fréttir

Eiður snýr aftur fjórtán árum síðar

Eiður Smári Guðjohnsen skrifaði undir samning til loka tímabilsins við Bolton í gær. Hann spilaði síðast fyrir liðið árið 2000. Hann snýr nú aftur til félagsins eftir langan og farsælan feril. Endurkoma í landsliðið?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×