Erlent

Leit hætt og svæðið gert að fjöldagröf

Samúel Karl Ólason skrifar
Leitarmenn notuðu skóflur og berar hendur til að reyna að finna eftirlifendur í skriðunum.
Leitarmenn notuðu skóflur og berar hendur til að reyna að finna eftirlifendur í skriðunum. Vísir/AFP
Björgunaraðgerðum eftir gríðarstórar aurskriður í Afganistan hefur verið hætt, en talið er að allt að 2.500 manns hafi látist í skriðunum. Skriðurnar féll á þorpið Ab Barik í norðausturhluta landsins á föstudaginn.

Talið er að mikil rigning hafi ollið skriðunum en 370 heimili grófust undir fyrri skriðunni. Sí síðari féll á björgunarfólk sem leitaði eftirlifenda fyrri skriðunnar.

Frá þessu er sagt á vef BBC.

Leitarmenn hafa nú hætt greftri og embættismenn segja svæðið vera fjöldagröf þorpsins. Hjálpargögn og þar á meðal tjöld hafa nú borist til eftirlifenda, sem hafa sofið undir berum himni frá því skriðurnar féllu.

Ríkisstjóri svæðisins sagði BBC að ómögulegt væri að halda leit áfram þar sem húsin væru undir metrum af mold. „Við munum biðja fyrir fórnarlömbunum og gera svæðið að fjöldagröf.“

Þrátt fyrir að talið sé að 2.500 manns hafi lent undir skriðunum hafa einungis 350 lík fundist.

Tjöldum og hjálpargögnum hefur verið komið til eftirlifenda skriðanna.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×