Fréttastofa BBC hefur beðist afsökunar á að hafa spilað lag með tónlistarmanninum Jimi Hendrix að lokinni útvarpsfrétt þar sem fjallað var um réttarhöldin yfir Oscar Pistorius.
Frjálsíþróttakappinn kom fyrir rétti í Suður-Afríku í dag en hann er sakaður um að hafa myrt kærustu sína til tveggja mánaða síðastliðinn föstudag.
Eftir útvarpsfrétt BBC af málinu var lag sett í loftið. Hey Joe með Jimi Hendrix varð einhverra hluta vegna fyrir valinu en lagið fjallar um mann sem ætlar að skjóta konuna sína.
Í texta lagsins segir:
„Hey Joe, where you going with that gun in your hand? I'm going out to shoot my old lady, you know I caught her messing around with another man".
Textann mætti þýða lauslega svona:
„Heyrðu Jói, hvert ertu að fara með byssuna þína? Ég ætla að skjóta konuna mína því ég kom að henni með öðrum manni."
Beðist var afsökunar á lagavalinu strax að því loknu auk þess sem talsmaður breska fjölmiðilsins ítrekaði afsökunarbeiðni sína sídegis.
