Erlent

Sjá fram á landlæga sæðisþurrð í Danaveldi

ÞJ skrifar
Nýjar og strangari reglur um gjafasæði í Danmörku gætu orðið til þess að sæðisbankinn Cryos International í Árósum, stærsti sæðisbanki heims, hætti að sjá Dönum fyrir sæði. Þetta kemur fram í frétt á vef danska ríkisútvarpsins, DR.

Nýja reglugerðin kveður á um að tryggt verði að tólf börn hið mesta verði til með sæði hvers sæðisgjafa. Ole Schou, forstjóri Cryos, segir ómögulegt að tryggja slíkt og því sé útséð um að fyrirtækið geti séð læknastofum í Danmörku fyrir sæði. „Afleiðingarnar eru þær að barnlaust fólk verður að leita til útlanda, ættleiða börn eða vera áfram barnlaust," segir Schou.

Yfirlæknirinn á Ciconia-læknastofunni í Árósum, sem hefur reitt sig á sæði frá Cryos, segir þess ekki langt að bíða að afleiðingarnar komi í ljós. „Við, og aðrar stofur í Danmörku, verðum þurrausin eftir tvær vikur, kannski þrjár."

Um 250 konur hafa fengið gjafasæði í Danmörku ár hvert en nú er allt útlit fyrir að mikill samdráttur verði strax í ár, þar sem fyrirtækin hafa ekki leyfi til innflutnings á sæði.

Enn verður þó leyfilegt að nota sæði sem hefur verið gefið af fjölskyldumeðlimi, eða ef sæðið var pantað fyrir árslok 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×