Íslenski boltinn

Hörpu vantar fimm mörk til að ná Helenu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir. Mynd/Daníel
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði 28 mörk í Pepsi-deild kvenna í sumar og hefur skoraði 51 mark síðan að hún varð mamma í apríl 2011. Harpa bætti í sumar metið yfir flest mörk hjá mömmu á einu tímabili en á enn eftir að ná Helenu Ólafsdóttur yfir flest mörk sem móðir.

Helena Ólafsdóttir ógnaði metinu hennar Ástu B. Gunnlaugsdóttur fyrir fjórtán árum þegar hún skoraði 19 mörk fyrir KR sumarið 1999.

Tveimur árum síðar komst Helena upp fyrir Ástu á heildarmarkalistanum og er nú sú mamma hefur skorað flest mörk samtals í efstu deild. Hörpu vantar reyndar aðeins fimm mörk til að jafna met Helenu og það er líklegt til að falla á næsta ári verði Harpa ekki komin út í atvinnumennsku.

„Ég hef voðalega lítið pælt í því og hef bara verið að einbeita mér að því að klára þetta tímabil vel. Svo eru landsliðsverkefni fram undan sem mig langar að standa mig vel í. Ef það kemur eitthvert tilboð sem ég get ekki hafnað þá skoða ég það en annars er ég mjög ánægð í Stjörnunni,“ segir Harpa en er von á fleiri börnum? „Það yrði allavega eitthvað óvænt en aldrei að segja aldrei,“ segir Harpa hlæjandi.



Markahæstu mömmur sögunnar:

56 mörk

Helena Ólafsdóttir 1996-2001

55 mörk

Ásta B. Gunnlaugsdóttir 1984-1995

51 mark

Harpa Þorsteinsdóttir 2011-2013

49 mörk

Hrefna Huld Jóhannesdóttir 2006-2011

44 mörk

Laufey Sigurðardóttir 1991-1997

39 mörk

Íris Sæmundsdóttir 1996-2004




Fleiri fréttir

Sjá meira


×