Erlent

Árangursrík meðferð við MS-sjúkdómnum

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar

Vísindamenn við Northwestern-háskólann í Chicago hafa lokið fyrri hluta tilrauna á nýrri meðferð við MS-sjúkdómnum sem getur dregið úr einkennum sjúkdómsins um allt að 75%.

MS-sjúkdómurinn hefur áhrif á miðtaugakerfi líkamans. Hann veldur því að ónæmiskerfið ræðst að einangrandi efni sem heitir mýelín og umlykur taugafrumur í mænu, heila og sjóntaug. Það veldur því að taugafrumurnar geta ekki miðlað rafboðum með fullnægjandi hætti og það veldur sjúkdómseinkennum. Í alvarlegustu tilfellunum getur sjúkdómurinn valdið lömun.

Stephen Miller, prófessor við Northwestern-háskóla, segir að nýja meðferðin stöðvi ónæmisviðbrögðin og komi í veg fyrir að nýjar ónæmisfrumur ráðist á mýelínið. „Þá er okkar nálgun þess eðlis að ónæmiskerfið starfar eðlilega. Það er stóra málið sem aðrar meðferðir hefur skort,“ segir hann.

Nýja meðferðin snýst um að nota hvít blóðkorn MS-sjúklinga til að lauma milljörðum mýelín-mótefnisvaka inn í líkama þeirra. Þar sem vakarnir koma inn í líkamann með blóðkornunum ræðst ónæmiskerfið ekki að þeim og myndar að lokum þol gagnvart þeim.

Meðferðin hefur því ekki sama ókost og aðrar meðferðir sem bæla niður virkni ónæmiskerfisins og gera MS-sjúklinga þar með berskjaldaða fyrir öðrum sjúkdómum. Um 430 Íslendingar hafa greinst með MS og er MS-félag Íslands starfrækt til að vinna að velferð þessa fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×