Erlent

Símasamband komið á milli Kóreuríkjanna

Símasambandi var komið á milli stjórnvalda í Norður- og Suður-Kóreu fyrr í dag, en Norður-Kóreumenn lokuðu fyrir sambandið í mars síðastliðnum.

 

Útlit er fyrir að fulltrúar ríkjanna hittist á fundum á sunnudag, í fyrsta skipti síðan nýr leiðtogi tók við völdum í Norður-Kóreu fyrir rúmum tveimur árum. Bæði ríkin hafa undanfarið lýst yfir áhuga á því að bæta samskiptin, sem hafa hríðversnað síðustu misseri. Norður-Kóreumenn hafa lagt til að fundað verði á iðnaðarsvæðinu í Kaesong, en Suður-Kóreumenn vilja funda í þorpinu Panmunjam. Þeirri ósk hafa norður-kóreysk stjórnvöld ekki enn svarað.

 

Í gær ákváðu ríkin að hefja viðræður um að opna sameiginlegt verksmiðjusvæði ríkjanna í Kaesong á ný, en norður-kóreumenn lokuðu svæðinu í apríl síðastliðnum. Stjórnvöld í Seúl segja ekki enn ljóst um hvað verður rætt á sunnudag, ef af viðræðunum verður. Háttsettir embættismenn munu líklega ekki taka þátt í þeim, heldur verður það næsta skref viðræðna ef vel gengur á sunnudag. Sérfræðingar segja stjórnvöld í Norður-Kóreu gera sér grein fyrir því að þau þurfi að bæta samskiptin við nágranna sína til þess að eiga möguleika á því að bæta samskiptin við Bandaríkin, sem er meðal annars forsenda þess að ríkið fái neyðaraðstoð.

 

Talsmaður Bandaríkjastjórnar sagði í gær að stjórnvöld væru fylgjandi betri samskiptum á Kóreuskaganum, en að viðræðurnar þar hefðu ekkert að segja um áframhald á viðræðum um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu. Búist er við því að málefni Norður-Kóreu verði mikið rædd á fundi forseta Bandaríkjanna og Kína, sem fer fram í Kaliforníu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×