Erlent

Hasssölumenn vilja borga opinber gjöld

Friðrik Indriðason skrifar
Hasssölumenn við iðju sína í Kristjaníu í Kaupmannahöfn.
Hasssölumenn við iðju sína í Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Nordiphotos/AFP

Hasssalar í Pusher Street í Kristjaníu í Kaupmannahöfn vilja borga skatta og gjöld af verslun sinni eins og hverjir aðrir kaupmenn í borginni.

Málið hefur vakið töluverða athygli í dönskum fjölmiðlum í kjölfar fréttar í blaðinu Politiken um þessar óskir hasssölumannanna. Í fréttinni var haft eftir einum þeirra að um 99 prósent félaga sinna vilji að verslun þeirra verði gerð lögleg „svo við getum farið með afrakstur dagsins í næsta bankabox eins og aðrir kaupmenn,“ eins og hann orðar það.

Politiken ræddi við Morten Bödskov dómsmálaráðherra Danmerkur í framhaldinu af framangreindri frétt. Viðbrögð hans voru að segja þvert nei við þessum óskum hasssölumannanna í Pusher Street. Bödskov segir það af og frá að dönsk yfirvöld muni semja um eitt eða annað við menn sem tilheyra skipulögðum glæpasamtökum. Þar er hann að vísa til þess að Hells Angels stjórnar að mestu markaðinum í Kristjaníu. „Við ætlum ekki að gefast upp fyrir skipulögðum glæpasamtökum sem standa að baki þessum fíkniefnaviðskiptum og öðrum glæpum,“ segir Bödskov. „Lögleiðing á hassi myndi aðeins auka neyslu þess og fjölga fíklum og þannig skaða ungmenni okkar enn meir en orðið er.“

Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar er jákvæður gagnvart því að lögleiða hass í borginni og hefur talað fyrir slíku undanfarna mánuði. Hann er hins vegar algerlega sammála dómsmálaráðherranum um að ekki komi til greina að semja um málið við hasssölumennina í Kristjaníu. Hugmyndir Frank Jensen ganga út á að hass verði selt í sérstökum verslunum undir ströngu eftirliti hins opinbera. Hann horfir einkum til þess að draga úr glæpum sem tengjast hasssölunni en blóðugir götubardagar hafa geisað frá áramótum milli glæpagengja sem berjast um bestu sölustaðina í borginni þ.e. fyrir utan Kristjaníu. Jensen horfir einnig til þess að hægt væri að auka tekjur borgarinnar verulega ef hass væri gert löglegt.

Stærsti hassmarkaður í Evrópu

Pusher Street er einn stærsti hassmarkaður Evrópu, en þar eru að jafnaði til staðar á bilinu 25 til 30 sölubásar á hverjum degi. Talið er að veltan á hassmarkaðinum í Kaupmannahöfn liggi á bilinu 750 til 1.000 milljóna danskra króna, allt að rúmlega 20 milljarðar íslenskra króna, á hverju ári. Rúmlega helmingur þeirrar veltu er af sölu á Pusher Street.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×