Erlent

Vilja að stjórnvöld grípi inn í kjaradeilu

Kjarabarátta Næstum fjórar vikur eru síðan verkbann var sett á um 70.000 danska kennara. Aukinn þrýstingur er á að ríkið höggvi á hnútinn.NordicPhotos/AFP
Kjarabarátta Næstum fjórar vikur eru síðan verkbann var sett á um 70.000 danska kennara. Aukinn þrýstingur er á að ríkið höggvi á hnútinn.NordicPhotos/AFP
Samtökin Foreldrar og skóli í Danmörku vilja að stjórnvöld grípi inn í til að binda enda á kjaradeilu kennara og sambands sveitarfélaga. Kannanir sýna að meirihluti landsmanna er á þeirri skoðun og að meiri samúð er með sjónarmiðum kennara en sveitarfélaganna.

Nú er gengið á fjórðu viku síðan sveitarfélögin settu verkbann á kennara til að knýja á um breytingar á vinnufyrirkomulagi. Ekkert hefur þokast í samkomulagsátt og er ástandið farið að hafa mikil áhrif á heimilin í landinu, enda þurfa foreldrar að gera ráðstafanir vegna þeirra 600.000 barna sem sitja heima.

Ríkisstjórnin hefur ekkert gefið út um hvort og þá hvernig verður gripið inn í en Politiken hefur eftir sérfróðum að þess verði vart langt að bíða. Líklegast verður um lagasetningu að ræða, en stjórnvöld geta nýtt sér flýtimeðferð til að keyra málið í gegnum þingið í einum rykk í stað hinna hefðbundnu þriggja umræðna.

Verkbannið gengur nú inn á prófatíma og segir Barnaheill í Danmörku að það sé farið að koma niður á börnunum. Of lítið tillit sé tekið til þeirra hagsmuna.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×