Erlent

Segir kosningarnar skrípaleik

Þjóðhátíðarstemning ríkti á Falklandseyjum þegar kosningin var haldin.
Þjóðhátíðarstemning ríkti á Falklandseyjum þegar kosningin var haldin. Nordicphotos/AFP
Christina Fernandez, forseti Argentínu, segir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Falklandseyjum vera skrípaleik, sem sviðsettur var í þágu Breta.

Íbúar á Falklandseyjum efndu til kosninga á sunnudag og mánudag um það hvort þeir vilji tilheyra áfram Bretlandi eða fara undir yfirráð Argentínu, eins og argentínsk stjórnvöld krefjast.

Einungis þrír kjósenda merktu við argentínsk yfirráð, en 99,8 prósent vilja tilheyra Bretlandi áfram. Þessi niðurstaða kom reyndar engum á óvart, enda eru íbúarnir flestir af breskum ættum og leggja sig fram um að vera helst breskari en íbúar Bretlands.

Fernandez segir kosninguna sambærilega við það að hústökufólk haldi fund til að „ákveða hvort það ætli að búa áfram í húsinu eða ekki.“

Alicia Castro, sendiherra Argentínu í Bretlandi, tekur í sama streng: „Þessi atkvæðagreiðsla var skipulögð af Bretum og fyrir Breta í þeim eina tilgangi að láta þá segja að svæðið eigi að vera áfram breskt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×