Erlent

Oxford orðabækur velja "selfie“ sem orð ársins

Samúel Karl Ólason skrifar
Frans páfi var með á hópsjálfsmynd ítalskra ungmenna fyrr á þessu ári. Mynd þessi fór sem eldur um sinu á internetinu.
Frans páfi var með á hópsjálfsmynd ítalskra ungmenna fyrr á þessu ári. Mynd þessi fór sem eldur um sinu á internetinu.
Orðabækur Oxford hafa tilnefnt orðið „Selfie“ eða sjálfsmynd sem orð ársins í enska tungumálinu. Rannsóknir sýna fram á að á undanförnu ári hefur notkun orðsins í rituðu máli aukist um 17.000%.

Frá þessu er sagt á vef BBC. Meðal orða sem komu einnig til greina sem orð ársins voru „twerk“ og „binge-watch“

Í orðabókinni frá Oxford er „selfie“ skilgreint sem ljósmynd sem einstaklingur tekur af sjálfum sér, yfirleitt með snjallsíma eða vefmyndavél, og hún sett á samfélagsmiðla. Þeir miðlar munu hafa átt stóran þátt í vinsældum sjálfsmynda og aukinnar notkunnar orðsins.

Fyrsta notkun orðsins sem rannsakendur Oxford fundu var árið 2002. Nánar tiltekið á áströlskum spjallþræði. Þar sagði ungur maður frá því að hann hafi verið við drykkju með vinum sínum og dottið og fengið skurð á vörina. Með fylgdi mynd og baðst hann afsökunar á því að myndin væri ekki í fókus og gaf ástæðuna: „Þetta er selfie.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×