Erlent

Skutu 26 ára fréttakonu til bana í Sýrlandi

Birgir Þór Harðarson skrifar
Stjórnarhermenn handjárnuðu og bundu fyrir augu þessara stríðsfanga í Qusayr í Sýrlandi.
Stjórnarhermenn handjárnuðu og bundu fyrir augu þessara stríðsfanga í Qusayr í Sýrlandi. nordicphotos/afp

26 ára gömul sýrlensk fréttakona lést og tveir starfsbræður hennar særðust í skotárás í Sýrlandi í gær.

Fréttakonan var að fjalla um átökin í heimalandi sínu þegar þau urðu fyrir árásinni. Hún starfaði fyrir sýrlenska sjónvarpsstöð í ríkiseigu en stjórnvöld þar í landi segja uppreisnarmenn hafa staðið að árásinni. Fréttakonan Yara Abbas var að fjalla um árás sýrlenska stjórnarhersins og líbanskra Hezbolla-liða á Qusayr, hernaðarlega mikilvægan bæ við landamæri Sýrlands og Líbanon, þegar ráðist var á fréttateymið.

Fréttir ríkisrekinnar sjónvarpsstöðvar herma að setið hafi verið fyrir þeim þegar þau óku inn á svæðið. Orrusta um þetta svæði í norðurhluta landsins hefur staðið í rúma viku og hefur stjórnarliðum orðið nokkuð ágengt gegn uppreisnarmönnum sem hafa ráðið yfir svæðinu. Síðan styrjöldin hófst í Sýrlandi í mars 2011 hafa tugir frétta- og blaðafólks fallið.

Alls hafa meira en 70.000 manns fallið í styrjöldinni, samkvæmt heimildum Sameinuðu þjóðanna. Þá virðist fréttafólk vera í síaukinni hættu á að vera rænt í Sýrlandi. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa jafnvel sagt að sérstaklega mikil hætta steðji að blaðamönnum frá báðum aðilum átakanna.

Í ágúst í fyrra var hópi sjónvarpsmanna rænt af uppreisnarmönnum og þeir síðar frelsaðir af stjórnarliðum. Í desember var bandarískur sjónvarpsmaður í haldi stjórnarliða en slapp eftir skotbardaga við ræningja sína. Þá hefur James Foley, bandarísks blaðamanns á vegum franskrar fréttastofu, verið saknað síðan í haust, en síðast sást til hans í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×