Erlent

"Egyptar eru enn að læra á lýðræðið“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Frá Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í dag.
Frá Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í dag. MYND/AP
Boðað hefur verið til fjöldamótmæla á Frelsistorginu í Kaíró í dag, þegar eitt ár er liðið frá embættistöku Mohamed Morsi. Formaður félags Múslima á Íslandi segir að andófsöfl í landinu hafa staðið í vegi fyrir umbótum og að Egyptar séu enn að læra á hið lýðræðislega ferli.

Fyrstu mótmælendurnir komu sér fyrir á Frelsistorginu í gær og sváfu þar í tjöldum í nótt. Sem stendur eru nokkur þúsund manns á torginu en samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins hefur fólk streymt að svæðinu í dag.

Frelsistorgið var miðpunktur uppreisnarinnar gegn einræðisherranum fyrrverandi Hosni Mubarak árið 2011. Þegar mest lét voru 300 þúsund manns samankomnir á Frelsistorginu.

Í aðdraganda forsetakosninganna lofaði Morsi, í umboði Bræðralags Múslíma, umfangsmiklum lýðræðisumbótum og efnahagslegri velsæld í Egyptalandi.

Frá Frelsistorginu í Kaíró í dag.MYND/AP
Sverrir Agnarsson er formaður Félags múslima á Íslandi og þekkir tíðarandann í Egyptalandi. Hann bendir á að andóf gegn Morsi og stjórn hafi frá kosningum verið gífurlegt.

„Egyptar eru ekki vanir lýðræði. Sambærilegt dæmi er þegar það er 60 prósent meirihluti í landi en hin 40 prósentin mótmæla öllu því sem kjörinn meirihluti gerir," segir Sverrir.

„Það hefur verið hlaðið peningum í stjórnarandstöðuna, hundruðir milljóna hafa borist frá Sádum og öðrum löndum í Arabaheiminum, til þess eins að gera stjórnsýsluna í Egyptalandi óvirka."

Morsi hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti og hefur átt í erfiðleikum með að uppfylla þau loforð sem gefin voru. Þá hafa andstæðingar hans sakað hann um að ganga langt í einræðistilburðum.

Rúmlega 22 milljónir Egypta hafa nú skrifað nafn sitt á undirskriftarlista þar sem þess er krafist að boðað verði til kosninga hið snarasta. Tæplega 85 milljónir manna búa í Egyptalandi.

Sverrir telur að mótmælin í dag verði sannarlega fjölmenn, enda eru Egyptar langþreyttir á þeirri stöðnun sem einkennt hefur egypskt samfélagið undanfarin ár. Þá bendir hann á að fyrirhugaðar umbætur Morsis hafi ekki náð í gegn, enda standi öflug stjórnarandstaða í vegi hans.

„Ef Egyptar ganga til kosninga, þá geri ég ráð fyrir að Morsi verði kjörinn á ný. Ég er sannfærður um það. Múslímska bræðralagið er langstærsta hreyfingin í Egyptalandi. Og þá hefur dreymt um lýðræðislegar kosningar um árabil,“ segir Sverrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×