Erlent

Talibönum tókst ekki að þagga niður í okkur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Malala Júsafsaí ávarpar Sameinuðu þjóðirnar.
Malala Júsafsaí ávarpar Sameinuðu þjóðirnar. Nordicphotos/AFP
„Þann 9. október árið 2012 skutu talibanar mig í ennið vinstra megin,” sagði pakistanska stúlkan Malala Júsafsaí þegar hún ávarpaði æskulýðsþing Sameinuðu þjóðanna í dag. 

„Þeir skutu vini mína líka. Þeir héldu að byssukúlan myndi þagga niður í okkur. En þeim tókst það ekki.”

Hún á afmæli í dag. Er sextán ára. Og Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að framvegis verði afmælisdagurinn hennar, 12. júlí ár hvert, nefndur Malöludagur í höfuðið á henni.

„Malöludagurinn er ekki minn dagur. Í dag er dagur allra kvenna, allra drengja og allra stúlkna sem hafa krafist réttar síns,” sagði hún í ávarpi sínu.

„Þúsundir manna hafa verið myrtir af hryðjuverkamönnum og milljónir særðar. Ég er aðeins ein þeirra. Svo hér stend ég, ein stúlka af mörgum. Ég tala ekki fyrir sjálfa mig heldur til þess að heyra megi rödd þeirra, sem ekki geta talað.”





Nýkomin á sjúkrahúsið í Birmingham í október á síðasta ári.Nordicphotos/AFP
Malala var á leið heim úr skólanum í þorpi sínu í Swat-dalnum í Pakistan í október síðastliðnum þegar maður réðst inn í skólabílinn og skaut á hana og vinkonu hennar. Hún var nokkru síðar flutt á sjúkrahús í Bretlandi, þar sem hún býr enn ásamt fjölskyldu sinni og hefur náð heilsu.

Hún hafði vakið athygli heimsins á unga aldri fyrir dagbók sína á netinu og ötula baráttu gegn hryðjuverkamönnum talibanahreyfingarinnar, sem gert höfðu líf hennar og nágranna hennar óbærilegt.

Hún er enn sem fyrr staðráðin í að láta ekki þagga niður í sér: „Hryðjuverkamennirnir héldu að þeir myndu breyta markmiðum mínum og stöðva metnað minn. En ekkert breyttist í lífi mínu nema þetta: Veikleikinn, óttinn og bjargarleysið dó. Styrkur, hugrekki og kraftur fæddust.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×