Erlent

Klerkur kosinn forseti Írans

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hassan Rouhani er nýr forseti Írans.
Hassan Rouhani er nýr forseti Írans. MYND/AFP
Klerkurinn Hassan Rouhani hlaut rúmlega helming atkvæða í forsetakosningunum í Íran og er því réttkjörinn arftaki Mahmoud Ahmadinejads.

Rouhani sagði í yfirlýsingu til írönsku þjóðarinnar að sigur hans væri í raun sigur hófseminnar yfir ofstæki. Kjördagur var á föstudaginn og var kjörsókn rétt rúmlega 70 prósent.

Alþjóðlegar eftirlitsaðilar hafa sett fram nokkrar athugasemdir við framkvæmd kosninganna, yfirvöld í Bandaríkjunum hafa engu að síður óskað Rouhani velfarnaðar í embætti ásamt því að lofsyngja vilja Írana til að koma til móts við alþjóðasamfélagið.

Rouhani er er 64 ára gamall og sver embættis í byrjun ágúst. Hann þykir hófsamur og viljugur til viðræðna við vestræn ríki um kjarnorkuáætlun Írans.

Vald forsetans er þó takmarkað, þó svo að hann sé hæst setti kjörni embættismaður landsins. Hann fer með framkvæmdavald en embætti hans heyrir engu að síður undir klerkastjórnina.

Æðsti leiðtogi Íran er Ali Khamenei, æðstiklerkur. Hann hefur lýst yfir stuðningi við Rouhani og hvatt þegna Íran til að styðja við bakið á honum.

Kjarnorkuáætlun Íran er mörgum hugleikin, þó svo að þarlend yfirvöld hafi ávallt þvertekið fyrir að þróun kjarnavopna sé tilgangur hennar. Forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, biðlaði til alþjóðsamfélagsins til að halda áfram þrýstingi sínum á Íran að stöðva tilraunir með kjarnorku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×