Erlent

Helga dæmd í fimm ára fangelsi fyrir Opus Dei-fléttuna

Helga Ingvarsdóttir ásamt unnusta sínum og Obama, forseta Bandaríkjanna.
Helga Ingvarsdóttir ásamt unnusta sínum og Obama, forseta Bandaríkjanna. Myndin er af vef Journal News.
Helga Ingvarsdóttir var dæmd í fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að stórfelldu fjársvikamáli sem beindist að tónskáldi og auðjöfri. Þetta kom fram á vef RÚV.

Helga, ásamt unnusta sínum Vicram Bedi, sviku 20 milljónir dala, eða 2.5 milljarða, af bandarískum auðkýfingi. Bedi var dæmdur í mars í níu ára fangelsi fyrir brot sín.

Bedi og Helga eru talin hafa svikið allt upp undir 20 milljónir dollara af Roger Davidson, þekktum djasspíanista og erfingja olíurisans Schlumberger Ltd. Davidson hefur hlotið Grammy-verðlaun fyrir rómanska tónlist.

Málavextir voru allir með nokkrum ólíkindum. Davidson leitaði árið 2004 til tölvufyrirtækisins Datalink, sem parið rak, vegna tölvuvíruss. Parið laug í kjölfarið að honum að vírusinn ætti upptök sín á hörðum diski í þorpi í Hondúras og að frændi Bedis, indverskur hermaður, hefði farið í þorpið til að eyðileggja diskinn.

Þar átti frændinn að hafa hitt fyrir pólska presta með tengsl inn í trúarregluna Opus Dei, sem hafi viljað vinna Davidson mein og ræna völdum í Bandaríkjunum.

Þessu virðist Davidson hafa trúað og til að verja diskinn, sem á var öll hans tónlist, lagði hann til Datalink stórfé í mjög langan tíma.

Davidson og parið áttu í kjölfarið náin samskipti. Málið komst upp eftir að viðskiptafélagar þremenninganna kærðu Davidson til lögreglu fyrir að njósna um þá með því að koma GPS-tækjum fyrir á bílum þeirra.

Þau neituðu sök í upphafi en játuðu að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×