Erlent

Laug til um árás á sig til að bæta stöðu samkynhneigðra

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Charlie Rogers (fyrir miðju) vildi, að sögn dómara, vekja athygli á bágborinni stöðu samkynhneigðra en vann málstaðnum ógagn.
Charlie Rogers (fyrir miðju) vildi, að sögn dómara, vekja athygli á bágborinni stöðu samkynhneigðra en vann málstaðnum ógagn.
Charlie Rogers, fyrrum körfuboltastjarna með Nebraska, var nýverði dæmd í tveggja vikna fangelsi og tveggja ára skilorðsbundið, fyrir að ljúga til um svívirðilega árás sem hún átti að hafa sætt.

Rogers, sem er samkynhneigð, hélt því fram að þrír grímuklæddir menn hafi brotist inn á heimili hennar, ráðist á sig og rist fordómafullar svívirðingar í garð samkynhneigðra í hold hennar og reyndu síðan að kveikja í íbúðinni. Að sögn nágranna hennar skreið Rogers nakin út, alblóðug og hrópaði á hjálp.

En, fljótlega kom í ljós að saga hennar stóðst ekki skoðun og hún var sótt til saka fyrir að ljúga að lögreglu. Ástæðan var sögð sú að hún vildi vekja breyta viðhorfi fólks til samkynhneigðra og því hvernig viðmóti þeir mæta. Dómarinn las upp Facebook-status hennar skömmu fyrir hina meintu árás: "Kannski er ég hugsjónakona, en ég trúi því innilega að við getum gert eitthvað í því að bæta stöðuna fyrir alla. Ég mun gera eitthvað í því, sjáið þið bara til."

Dómarinn sagði gjörninginn hafa sprungið í andlit hennar, ekki aðeins hafi henni mistekist ætlunarverk sitt heldur, og það sem verra er, Rogers hafi stórskaðað þann málstað sem hún taldi sig vera að berjast fyrir. Efasemdir hljóti nú að vakna ef samkynhneigðir komi fram með réttmæta gagnrýni um stöðu sína auk þess sem Rogers hefði tekist að vekja upp ótta í samfélagi samkynhneigðra með tiltækinu.

Rogers hefur staðfastlega haldið fram sakleysi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×