Erlent

FBI segist vita hverjir stóðu að stærsta listaverkaráni sögunnar

Bandaríska alríkislögreglan FBI segir að hún viti loksins hverjir það voru sem stóðu að stærsta listaverkaráni sögunnar árið 1990.

Ránið sem hér um ræðir átti sér stað á Isabella Stewart Gardner safninu í Boston. Tveir menn klæddir sem lögreglumenn komu inn á safnið skömmu eftir að það lokaði á St Patreksdegi, smöluðu starfsfólkinu saman og læstu inni í litlu herbergi og létu svo greipar sópa.

Þeir höfðu augljóslega næmt auga fyrir verðgildi verkanna sem voru til sýningar því þeir rændu aðeins 13 þeirra, þar á meðal verkum eftir Rembrandt, Degas og Vermeer. Á þessum tíma voru verkin 13 metin á tæplega 600 milljónir dollara eða yfir 75 milljarða króna.

Þótt FBI segist vita hverjir voru að verki vill alríkislögreglan ekki gefa upp aðrar upplýsingar en þær að þeir hafi tilheyrt skipulögðum glæpasamtökum.

Ekkert af þessum 13 listaverkum hefur fundist síðan þeim var rænt. Talið er að þau séu í einkasöfnum ýmissa auðmanna eða glæpamanna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×